föstudagur, júlí 25, 2008

Tónleikar: Damien Rice á Nasa

Við Vigdís fórum á frábæra tónleika í gærkvöldi, með Íslandsvininum Damien Rice. Hugtakið Íslandsvinur er yfirleitt notað um alla þá sem sækja landið heim en ætti heldur að notast um þá sem koma aftur, og aftur, eins og Damien Rice. Þetta eru þriðju eða fjórðu tónleikar hans á landinu á fimm árum - og í öll skiptin hefur selst upp á skömmum tíma. Hann á mjög tryggan aðdáendahóp hér á landi.

Damien Rice er einstaklega lifandi í allri framkomu, einlægur í tjáningu á milli laga, mikill húmoristi (og mjög djúpt þenkjandi í leiðinni) auk þess sem hann er fær um að spanna gríðarlega mikinn skala í dýnamískum flutningi, frá því að það megi heyra saumnál detta (salurinn agndofa) yfir í gríðarmikinn kraft sem líkja mætti við foss, sem varla er stætt undir. Hann er ótrúlegur og hreinlega í sérklassa sem sviðslistamaður. Maður sá allt í kringum sig fólk hreinlega brotna saman tilfinningalega strax við fyrsa lag, svo berskjaldaður verður maður undir þessum flutningi. Og þvílík innlifun! Aldrei hef ég orðið vitni að því að tónlistamaður fari hreinlega í gervi sögupersónunnar sem hann syngur um eins og Damien gerði í lokalaginu. Það fjallaði um kunningja hans sem lenti í sérkennilegri ástarsorg á bar (sagan var magnaðri en svo að ég geti endurtekið hana hér), nema hvað, Damien ákveður í þessu síðasta lagi að fá kassa af bjór upp á svið. Síðan býður hann 20 manns úr salnum upp á svið til að drekka með sér (sem fjöldi manns samþykkti að sjálfsögðu) á meðan hann sagði söguna. Hann fékk sér sjálfur fékk hann sér vín að drekka (hafði mjög fagmannlega drukkið vatn allt kvöldið, nota bene) og varð talsvert drukkin á skammri stundu áður en hann hóf flutninginn . Með vissu millibili fékk hann svo liðið uppi á sviði til að skála við hvert annað, þannig að gegnum lagið heyrðist þessi flöskuglamurstaktur. Ótrúlega flottur sviðseffekt. Á meðan fékk hann sér alltaf sopa (og hinir með). Þetta var eins og að horfa á sögupersónuna sem hann söng um birtast á sviðinu. Á vissum tímapunkti í textanum var minnst á sígarettu og með leikrænum tilþrifum, eins og í örvæntingu, vafði hann sér eina og kveikti í (nokkuð sem kom verulega á óvart í ljósi reykingabannsins, en rann fullkomlega saman við söguna sem þarna var flutt). Svo lauk þessu með hálfgerðri trúnaðarsamkomu uppi á sviði þar sem aðdáendur föðmuðu kappann, sem hafði gefið óskaplega mikið af sér allt kvöldið. Aðrir fóru gáttaðir út í næturmyrkrið.

Engin ummæli: