laugardagur, júlí 19, 2008

Upplifun: Ánægjuleg bústaðardvöl

Nú vorum við að koma úr nokkurra daga daga sumarbústaðardvöl í Grímsnesinu. Við erum svo heppin að eiga aðgang að bústað þar gegnum Jón Má og fjölskyldu hans. Hingað til höfum við heimsótt þau Jón og Margréti en í þetta skiptið vorum við ein í bústaðnum, við Vigdís og litlu telpurnar okkar, það er að segja. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem við förum í bústað með þær tvær saman. Einhverju sinni fór Signý með okkur, og Hugrún var þá í pössun, og einu sinni var þessu öfugt farið. Svo buðum við einu sinni mömmu Vigdísar með, og höfðum þá bæði Signýju og Hugrúnu. Það munaði heilmikið um þá aðstoð. Í þetta skiptið vorum það hins vegar við fjögur í fyrsta skipti.

Það verður að segja eins og er að mestur hluti tímans fór í að sinna stelpunum. Oftast sofnuðum við Vigdís með þeim dauðþreytt. Aðeins eitt eftirmiðdegi nýttist sem sannkölluð slökun, en þá hafði ég baðað þær tvær og stuðlað þannig að samhliða hádegislúr þeirra, sem við Vigdís nýttum í sólbað eða lestur góðra bóka. Þessi rútína var að festast í sessi þegar við fórum heim. Við gátum af ýmsum sökum ekki verið lengur en sáum fram á hvernig heimilisbragurinn uppi í sveit var allur að smyrjast. Það tekur sinn tíma að laga sig að nýjum aðstæðum með þær tvær. En það var hins vegar sérlega ánægjulegt hvað það fór vel um Hugrúnu og Signýju. Þær léku sér mikið í kojunum (þar sem efra rúmið fer þvert yfir til fóta og myndar þannig "hús" þeim megin). Signý endurnýjaði kynni sín af gömlum vídeóspólum. Við höfum ekki geta spilað þær mánuðum saman og nýttum tækifærið fyrst tækið var í bústaðnum. Við fórum auðvitað í sund líka í brakandi blíðviðri.

Það er kannski mest lýsandi fyrir dvölina að Signý vildi helst ekki fara heim. Þegar við renndum í hlað í Granaskjólinu sagði hún fyrst "ekki heim!". Stuttu síðar ítrekaði hún óskina, alvarleg á svipin: "heima hjá Mekoggu". Þar átti hún við Melkorku, dóttur þeirra Jóns og Margrétar. Áður en við lögðum af stað í bústaðinn hafði ég nefnilega sýnt henni myndir af þeim þremur í bústaðnum frá því við heimsóttum þau fyrr í sumar. Það gerði ég til að hún áttaði sig fyrirfram á því hvert við værum að fara. Ég man ekki eftir að hafa minnst á Melkorku á meðan við vorum í bústaðnum, þannig að hún hefur tekið ansi vel á móti upplýsingunum.

Engin ummæli: