Hugrún er svo sannarlega farin að ganga. Þegar við vorum í bústaðnum rétt fyrir Verslunarmannahelgi tók Hugrún sín fyrstu samfelldu tíu skref, eða svo. Síðan gerðist lítið fyrr en viku seinna og þá var ekki aftur snúið. Hún er nú farin að hafa gaman af því að ganga og er farin að notast við það til jafns á við skriðið til að koma sér á milli staða. Hún er mjög snögg að ná tökum á þessu, enda búin að fínpússa tæknina mánuðum saman (með því að standa upp úr setstöðu, ganga með, sleppa sér, beygja sig eftir hlutum og, síðast en ekki síst, með því að klifra upp á alla stóla sem hún finnur). Það er óskaplega gaman að fylgjast með henni á þessu stigi.
Í kvöld átti sér stað einstaklega skemmtilegt atvik þar sem Signý sat inni í stofu á koppinum. Hugrún var um tveimur metrum frá henni að tína hafrakodda upp í sig, sitjandi á bossanum. Allt í einu stóð hún reisulega á fætur, eins og öldungur, og staulaðist í áttina til Signýjar. Ég lét frá mér bókina sem ég var að lesa og ætlaði að stöðva framgang hennar. Ég vildi ekki að hún truflaði Signýju á koppinum. Áður en ég náði að grípa inni í teygði Hugrún aðra höndina fram, bogin í baki og virðuleg, og hélt á einum hafrakodda. "e de naminam" (þetta er namminamm) sagði hún og gaf Signýju að smakka. Svo staulaðist hún eitthvað lengra á meðan Signý maulaði með sjálfri sér.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli