miðvikudagur, ágúst 20, 2008
Upplifun: KR-markaðurinn og kvefpest
Um helgina var haldinn skemmtilegur markaður í KR-húsinu. Öllum Vesturbænum (og líklega fleiri hverfum) hafði verið boðið að mæta með dót úr geymslunni eða afurðir úr garðinum. Ekkert vesen, engin básaleiga, bara mæta tímanlega og koma sér fyrir. Þetta var á laugardaginn var. Signý og Hugrún voru eitthvað slappar, með kvef, og voru því heima. Ég leyfði Vigdísi að njóta sín á markaðnum á meðan ég horfði á handboltaleikinn við Dani. Hún var afar kát með afraksturinn þegar hún kom til baka. Keypti meðal annars skemmtilegan sólstól í barnastærð. Þegar Vigdís kom heim skaust ég í hálftíma (þetta er bara of nálægt til að sleppa alveg) og gekk í gegnum fjölskrúðugt mannlífið og nett kaotíska stemmningu. Ég kom hins vegar drulluslappur til baka og lagðist fyrir með hrikalegt kvef og hnerraköst (var slappur fram á mánudag). Þetta kvef sótti að okkur öllum eitt af öðru af krafti en staldraði stutt við í öllum tilvikum. Ég var síðastur til að leggjast, en er nú orðinn hress.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli