fimmtudagur, ágúst 28, 2008
Upplifun: Við uppi á Arnarhóli
Nýi tvöfaldi hjólavagninn kom aldeilis að góðum notum í gær. Þrátt fyrir að Vigdís væri á kvöldvakt gat ég skotist niður í bæ með bæði Hugrúnu og Signýju. Tíminn var knappur og rétt dugði fyrir snöggsoðinn kvöldmat en vegna þess hve þægilegt er að skokka með vagninn fór ég samt létt með að ná athöfninni tímanlega. Við mættum á svæðið þegar handboltaliðið var komið upp á Skólavörðuholt og höfðum því gott ráðrúm til að planta okkur á afviknum en góðum stað uppi á Arnarhól. Staðurinn var heppilegur því við fundum einhvers konar lægð (hálfgerða laut) í hólnum þaðan sem erfitt var að sjá á sviðið. "Heppilegt" segi ég vegna þess að þegar liðið var runnið í hlað, og allur skarinn kominn upp á hól, vildi enginn vera akkúrat á þessum blett. Það var ekkert þrengt að okkur, nánast eins og áhorfendur hefðu slegið skjaldborg umhverfis okkur Hugrúnu og Signýju. Við höfðum gott pláss til að hreyfa okkur í takt við tónlistin, enda full þörf á því: Páll Óskar er í miklu uppáhaldi hjá þeim systrum. Signý sveiflaði höndum og klappaði saman höndum ákaft upp á háhesti á meðan Hugrún stóð vandlega í fæturnar fyrir neðan okkur. Hún dansaði með því að beygja sig mjúklega upp og niður í hnjánum. Fjölmargir áhorfendur gjóuðu augunum til Hugrúnar og Signýjar og kímdu við. Þær voru alveg í essinu. Þegar að því kom reyndist líka býsna erfitt að koma þeim í vagninn aftur, enda ekki á hverjum degi sem þær upplifa svona mannfagnað.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli