sunnudagur, ágúst 10, 2008

Fréttnæmt: Viðburðir í sumarlokin

Ýmislegt drífur á daga okkar nú síðsumars. Við fórum í eftirminnilegt brúðkaup á föstudaginn var. Vinnufélagi minn af sambýlinu og kórfélagi, Árni Björnsson, og kærasta hans til margra ára, Ásthildur, létu splæsa sig saman. Brúðkaupið var haldið heima hjá foreldrum hans (óvenjulegt). Þetta gerði samkomuna mjög huggulega. Þau voru búin að koma upp samkvæmistjaldi í garðinum þar sem setið var að veitingum við langborð, þar sem menn sungu, skröfuðu og neyttu veitinga af ýmsu tagi. Mjög skemmtilegt kvöld í fallegu veðri.

Annað gerðum við frásagnarvert, nú upp úr verslunarmannahelgi. Við keyptum tvöfaldan hjólavagn á útsölunni í Erninum. Hann er alveg eins og sá sem við áttum fyrir, nema ögn breiðari. Við höfum prufukeyrt hann, bæði á hjólinu og gangandi. Þær Signý og Hugrún kunna vel við sig saman þar inni. Ég átti allt eins von á stríðni eða einhvers konar stympingum þeirra á milli, en það er nú öðru nær: Þær eiga það frekar til að söngla saman einhver orð, frasa eða tóna. Hljómurinn er ákaflega huggulegur, enda eru þær mjög nánar systurnar. Nú getum við farið öll saman í hjólatúr eftir Ægissíðunni. Það gerðum við nú í dag, enda fínt veður. Við keyptum okkur lautarnesti í næsta bakaríi og komum okkur notalega fyrir á fótboltavellinum við Skerjafjörðinn.

Nú eru ekki nema fjórir dagar þar til ég byrja að vinna aftur (á fimmtudaginn). Við Vigdís erum með hugann við að nýta dagana framundan sem best. Signý er byrjuð aftur í leikskólanum (á mánudaginn var) og við ættum að hafa nokkuð gott svigrúm til að hnýta saman lausa enda -og ef til vill njóta sumarsins örlítið lengur.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Karlmenn kvænast, giftast ekki!
kv
S

Steini sagði...

Rétt er það. Mér finnst bara svo formlegt og stíft að notast við "kvænast". En er búinn að laga... fór aðra, enn óformlegri leið í staðinn.