föstudagur, ágúst 29, 2008

Þroskaferli: Já eða nei

Um daginn tók ég orðaforða Hugrúnar fyrir en lét hjá líða að greina sérstaklega frá því í hvaða röð orðin komu. Sagan á bak við "já og nei" er nefnilega frekar undarleg. Hugrún lærði fljótt að segja "búið" (eins og ég greindi frá á sínum tíma) og mánuðum saman sagði hún þetta af myndarskap og hristi höfuðið í ofanálag þegar hún vildi ekki borða meira. Þetta virkaði auðvitað vel og fyrir vikið tók ég eiginlega ekki eftir því að hún sagði aldrei "nei". Ekki fyrr en snemma í sumar. Hún var orðin rúmlega ársgömul þegar maður heyrði þetta lykilorð í fyrsta skipti. Þá fattaði ég fyrst að þetta orð var nýtt fyrir henni. Í sumar var "nei" hins vegar notað vítt og breitt sem svar við ýmsu, bæði neikvæðu og jákvæðu (ásamt gamla góða "búið"-orðinu). Okkur fannst sérstaklega sætt að sjá hana svara spurningum okkar (t.d. viltu banana?) með afar einlægu og sérstöku "nei", sem var svo jákvætt að okkur fannst það vera já. Tónfallið var upp á við, en ekki neikvætt og ákveðið. Það var ekki fyrr en í byrjun ágúst sem "já" kom frá henni og nánast samtímis lærði hún að kinka kollinum (að jánka) og gerði það með galopið biðjandi augnaráð sem gjörsamlega bræddi okkur.

Ferlið var því svona:
1) Hristir hausinn
2) "Búið"
3) "Nei"
4) Jákvætt nei
5) "Já"
6) Kinkar kolli

Um líkt leyti fór Signý í leikskólann eftir sumarfrí. Það er gaman að bæta því við í þessu samhengi að eftir fyrstu vikuna breyttust já-in og nei-in hennar í "jabbs" og "neibbs". Líklega hefur einhver í leikskólanum hefur verið með þennan "kæk" á tímabili því þetta varaði ekki nema eina til tvær vikur hjá henni. Kannski fannst henni bara svona gaman að byrja í leikskólanum aftur. Þetta er svolítið glaðlegra en venjulegt "nei" og "já", ekki satt?

Engin ummæli: