miðvikudagur, september 03, 2008

Pæling: Sumarglæta að hausti

Nú er sólin búin að skína skært í þrjá daga og útlit fyrir framhald á því fram að helgi, eða lengur. Þetta er að mínu mati besta sólin. Betra en hásumarshitabylgja. Ég nýt mín alveg sérstaklega þegar sólin skín svona á haustin vegna þess að:

1) Loftið er svalara og ferskara (án þess að vera orðið kalt) og í því engin hætta á leiðindamollu. Manni er hlýtt í léttum bol eða skyrtu en finnur samt fyrir þægilegri kælingu í andliti öðru hvoru.
2) Ofnæmisvaldar í loftinu eru á undanhaldi. Ég get andað djúpt að mér án þess að taka út refsingu með hnerrakasti stuttu seinna. Þar af leiðandi get ég spókað mig utandyra að vild í blíðviðrinu.
3) Það myndast ekki sama örvænting og á sumrin þegar sólin gægist fram núna. Á sumrin eru flestir í frí og þjóðin lætur þá eins og örvæntingarfullur fíkill og hleypur upp til handa og fóta. Núna er fólk bundið heimahögum, vinnu eða námi og fær ekki sama samviskubit yfir því að lifa eðlilegu lífi á meðan. Það nýtur sólarinnar á einfaldari og eðlilegri hátt á heimaslóðum.
4) Á þessum tíma árs er maður farinn að búast við kulda, myrkri og rigningu. Maður kann því betur að meta sólina og er einfaldlega þakklátari fyrir hana en um hásumarið.

Engin ummæli: