þriðjudagur, september 02, 2008

Upplifun: Fjaran í fyrsta skipti

Hvað er betra en að leika sér í sandkassanum þegar maður er rúmlega eins árs? Svar: Að leika sér í fjöruborðinu! Finna alls kyns smáhluti og kasta litlum steinum í flæðarmálinu. En ef maður er tæplega þriggja ára? Þá er fjaran alveg jafn spennandi enda ekkert skemmtilegra en að leita að kröbbum (eða því sem er eftir af þeim) og handfjatla blöðruþang. Svo má alltaf kasta steinvölum í sjóinn eins og litla systir og passa að blotna ekki í fæturna. Ég minnist á þetta núna vegna þess að í dag fór Hugrún í fyrsta skipti í fjöruna. Hún hafði áður átt leið um en aldrei dvalið eins lengi í dag og notið sín eins vel. Það var frábært að sjá hana ganga örugglega yfir ójafnan sandinn. Maður þurfti náttúrulega að grípa inn í á vissum stöðum og passa sérstaklega upp á að hún færi ekki beina leið í sjóinn (Hugrún fagnaði öldunum og hrópaði "Bað! Bað!"). Eftir notalega og drjúga stund í fjörunni skokkuðum við heim í frábæru veðri.

Engin ummæli: