Tónleikarnir á fimmtudaginn var voru að vonum frábærir. Gaman að sjá Stuart Staple með berum augum. Hann hefur breyst eitthvað frá því maður las viðtölin við sveitina fyrir 10-15 árum. En hann var afar kátur á sviðinu, ekki neinn drungi yfir honum. Hann brosti mikið og var greinilega glaður yfir því að vera kominn á stjá á ný. Hljómsveitin var 6-7 manns, sem er í meira lagi miðað við hvað gengur og gerist í bransanum en í allra minnsta lagi fyrir tónlist Tindersticks. Sum laganna komu afbragðsvel út - og þá var ég sérstaklega hrifinn af innkomu málmblástursins (var það trompet?) sem tætti lögin í sig í tví- eða þrígang. Sellóið var líka sniðug lausn ef menn vilja ekki ferðast með strengjasveit. Það er myndarlegur hljómur í einu sellói og gat því oftar en ekki komið í stað strengjanna. Samt vantaði aðeins upp á. Ég er nefnilega sérlega hrifinn af því hvernig strengjahljómur Tindersticks (á fyrstu tveimur plötunum sérstaklega) nær að lyfta tónlistinni upp í hæstu hæðir. Hljómsveitin var greinilega meðvituð um sín takmörk uppi á sviðinu og spilaði fyrst og fremst af nýjustu plötunni sinni og tók síðan kannski 2-3 lög að meðaltali af hinum plötunum. Ég saknaði þess óneitanlega að heyra meira af allra fyrstu plötunum og átti fastlega von á þriðja uppklappi - sem ekki varð af.
Engu að síður voru frábærir tónleikar staðreynd. Það munaði mikið um það að vera vel staðsettur. Við Vigdís komum mjög snemma og fengum sæti við "svalirnar" á besta stað. Mér fannst notalegt að geta setið rólegur án þess að hafa hugann við óþægindi í baki og með strengi í fótum. Ég finn yfirleitt til líkamlegra óþæginda á standandi tónleikum - sem draga þá verulega úr ánægjunni - en þarna sat maður eins og heima í stofu og lyngdi aftur augum. Ekki skemmdi heldur fyrir að salurinn - þverskurðurinn af áhorfendum, það er að segja - var mér sérstaklega að skapi. Ég hitti eða sá ótrúlega marga gamla kunningja - fólk sem ég umgekkst meira á þeim árum sem ég var í háskólanum, fyrir svona 10-15 árum. Það rímar ágætlega við þann tíma þegar ég var á bólakafi í að hlusta á Tindersticks. Svo kom mér skemmtilega á óvart (og þó ekki) að hitta Konna, sem ég minntist á í síðasta pósti. Ég sá hann við barinn og gaf mig að honum - rétt eins og hann væri löngu týndur Livingstone. Við urðum snarlega spjallreifir yfir því að hittast á þessum stað og þessari stund. Við rifjuðum ýmislegt upp frá útvarpsárunum og skiptumst á gamalkunnugum skoðunum. Hvorugur okkar hafði séð Tindersticks áður. En í miðjum klíðum var spjallið rofið af barþjónninn sem hallaði sér að okkur: "Áhorfendur eru að kvarta undan hávaða". Úps! Allt í einu er maður orðinn einn af þessum óþolandi tónleikagestum. Við slitum samtalinu þar með og héldum í sitt hvora áttina til að njóta tónleikanna.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli