Nú eru aðeins tveir dagar í Tindersticks-tónleikana. Ég hef fylgst með þeim síðan þeir komu fram í fyrsta skipti árið 1993 og er sannfærður um að þeir hafi hljómað í fyrsta skipti í íslensku útvarpi í þættinum sem ég var með þann veturinn (ásamt Hákoni vini mínum úr F.B.). Þátturinn hét "Straumar" og var á X-inu, þegar sú útvarpsstöð var nýstofnuð. Við lögðum okkur fram um að fjalla um tónlist samtímans á faglegan hátt og reyndum í leiðinni að mynda tengingar við eitt og annað í fortíðinni. Við vorum meira að segja með klassískt tónlistarhorn, í svona kortér, þar sem við tengdum einhverja lagasmíð gömlu meistaranna við umfjöllunarefni þáttarins hverju sinni. Einn þátturinn fjallaði til dæmis um dauðann og þá voru allar lagasmíðar þáttarins á einhverju hringsóli um þetta þema, líka klassíska hornið (við gripum inn í sönglagaflokkinn "Songs and Dances of Death" eftir Mussorgsky). Annar þáttur fjallaði um "syngjandi gítarspil" þar sem gítarinn er notaður sem staðgengill mannsraddarinnar til að flytja söngvænar melódíur. Shadows voru þekktir fyrir þetta, Dire Straits og aðrir mjúkir rokkarar, en ekki síður nýbylgjusveitir eins og Television og Pixies. Í klassíska horninu var til samanburðar gripið niður í einverja sinfóníu Schuberts (Þá ókláruðu, að mig minnir) sem ber einmitt sama yfirbragð. Fiðlurnar eru þá fengnar til að "syngja" laglínuna mjög blátt áfram án flókins hljómagangs eða óvæntra taktskiptinga. Svona gekk þetta þátt fyrir þátt - taktföst tónlist í einum þætti, rómantísk tónlist í næsta, hávaði (eða bara "feedback") í þeim þriðja. Umfjöllunarefnin voru ótalmörg og hjálpuðu okkur við að fókusera í hverjum þætti og gerðu þá í leiðinni fjölbreyttari. Þetta vakti svolitla athygli, innahúss að minnsta kosti, enda vorum við í góðlátlegu gríni kallaðir "spekingarnir" á stöðinni af gaurunum sem þarna störfuðu. Þetta voru skemmtilegir tímar.
Svo kom að áramótaþættinum sem fékk það sjálfgefna viðfangsefni að gera áramótauppgjörum tónlistarblaðanna skil. Við vorum búnir að fylgjast vel með tónlistinni gegnum vikublöðin Melody Maker og NME og keyptum tónlist grimmt á þessum árum. Áður en maður opnaði þessi blöð renndi maður alltaf í gegnum huga sér þeim plötum sem manni fannst sjálfum standa upp úr á árinu. Nokkrar komu strax upp í hugann að þessu sinni: Björk gaf út sína fyrstu plötu, the Boo Radleys gáfu út frábæra og nútímalega plötu undir áhrifum frá hvíta albúmi Bítlanna og the Afghan Whigs og Smashing Pumpkins gáfu út frábærar rokkskífur undir áhrifum Grunge rokksins. PJ Harvey kom öflug á sjónarsviðið með tvær plötur, Nirvana og Pearl Jam létu sitt ekki eftir liggja auk þess sem Britpoppið var rétt að læðast inn (fyrsta plata Suede, snilldarplata Auteurs og endurkomuplata Blur eftir smá hlé). Þegar maður opnaði áramótablað Melody Maker 1993 var maður hins vegar gáttaður: Plata ársins var með algjörlega óþekktri hljómsveit sem hét Tindersticks. Hún var ekki einu sinni á topp 50 hjá hinum blöðunum. Strax í næsta útvarpsþætti var Konni búinn að næla í plötuna og við renndum henni í gegn - ekki allri, en ansi mörg lög fengu að fljóta. Hróðugir vissum við að svo gott sem enginn þeirra hlustenda sem rýndu út í næturmyrkrið þennan janúarmánuð 1994 hefði heyrt þessa tónlist áður. Svei mér ef þetta var ekki síðasti þátturinn minn í útvarpi líka. Að minnsta kosta lognaðist þátturinn út af stuttu seinna vegna óanægju okkar með stjórnun stöðvarinnar.
Núna, síðla árs 2008, næstum fimmtán árum seinna, er sveitin á leiðinni til landsins. Að þessu sinni eiga þeir langan feril að baki. Þeir gáfu út aðra stórkostlega plötu tveimur árum eftir frumburðinn og nokkrar góðar í kjölfarið. Ég hef alltaf haldið mikið upp á tvær fyrstu plöturnar en einhverra hluta vegna hætti ég að fylgjast með sveitinni eftir það. Svo hættu þeir í nokkur ár en eru nú komnir til baka með vægast sagt frábæra plötu. Hún er betri en allt það sem kom út á síðari hluta ferilsins og er til vitnis um mjög magnaða endurkomu. Það vill svo undarlega til að fyrir örfáum vikum síðan tók ég að mér það verkefni að skrifa stuttan pistil um hljómsveitina, án þess að hafa hugmynd um að sveitin væri á lífi - og einmitt þá kom nýja platan út. Pistillinn sem ég skrifaði var á vefsetrinu "rateyourmusic.com" (sem ég hef skrifað um áður). Þar er félagsskapur sem hefur einsett sér að búa til handhægt yfirlit yfir tónlistarsöguna (Rough Guide to Everything). Þar er hugmyndin að maður geti slegið upp nafni hvaða hljómsveitar sem er og fengið lista yfir þau lög og plötur sem óhætt er að mæla með að maður kynni sér fyrst í stað- ásamt umsögnum. Þetta kemur mjög skemmtilega út í flestum tilvikum og óhætt að fullyrða að margir þátttakendur í þessu verkefni nálgast það af fullum metnaði. Mitt framlag til Tindersticks innslagsins er notað sem megintextinn um sveitina (smellið á linkinn hér fyrir ofan og veljið svo síðu 37). Þar segi ég um það bil allt sem ég hef um hljómsveitina að segja. Þeir sem fara á tónleikana mega gjarnan lesa sér til upphitunar. Hinir hafa enn tækifæri til að kaupa sér miða. Þetta verður mergjað.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli