Nú er Signý byrjuð aftur á leikskólanum. Hún er býsna kát með það allt saman og hefur kvatt mig á morgnana með bros á vör. Fríið undanfarnar tvær vikur hefur samt farið mjög vel í hana. Við uppgötvuðum leikvöll í grenndinni þar sem ÍTR starfrækir barnagæslu. Þar var huggulegt að koma sér fyrir og leyfa Signýju að leika sér að vild og fylgjast með henni með öðru auganu. Þetta var fastur punktur á morgnana. Seinni partinn fórum við hins vegar gjarnan út á Gróttu þar sem hún naut sín í fjöruborðinu. Við höldum þeim sið til streitu um helgar héðan í frá enda fátt eins endurnærandi en að spóka sig í fjörunni, hvernig sem viðrar.
Signý var einnig dugleg að hitta jafnaldra sína í fríinu. Við fengum margar góðar heimsóknir og fórum líka sjálf út úr húsi, meðal annars í heimsókn á Álftanesið þar sem Einar og Sólveig eru nýbúin að byggja yfir sig glæsilegt hús. Þangað komu einnig Kristján og Stella með Áslaugu Eddu. Öll eigum við tvær dætur (ein þeirra reyndar enn á leiðinni) og höfum sérlega gaman af að leyfa þeim að hittast.
Myndir úr þessari heimsókn, fjörumyndir og leikvallamyndir birtast á myndasíðunni fljótlega.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli