þriðjudagur, ágúst 14, 2007

Tilvitnun: Mótmæli útlendinga

Ég var að renna í gegnum Fréttablaðið frá í gær (13. ágúst) og fann þar stórskemmtilega grein um Saving Iceland félagsskapinn undir titlinum "Biluð sjónvörp" (eftir Guðm. Andra Thorsson). Mig langar að vitna í hana hér og varðveita í leiðinni eftirminnilegustu vangavelturnar. Höfundurinn veltir fyrir sér viðhorfum okkar Íslendinga til mótmælenda sem eru í hróplegu ósamræmi við aðgerðir þeirra. Þeir fóru meðal annars í Kringluna þar sem þeir "hoppuðu um í Hare-Krisna-fíling og einhver Ameríkani átaldi Kringlugesti fyrir neysluæði". Um þetta sagði höfundurinn nánar:

"Þetta var eins og Stubbarnir að hnoðast um og virkaði meira sætt en ógnandi á flesta - nema kannski lögregluna sem fagnaði því að fá loks hryðjuverkaógn að kljást við. Samtökin virka vissulega á almenning eins og óútreiknanleg öfgasamtök en þær öfgar birtast í kunnuglegum vandalisma og óþekkt sem löngum hefur fylgt íslenskum unglingum: þau sletta skyri og málningu, klifra upp í krana og fleygja sér gólandi á lögregluna... Eiginlega er Saving Iceland eins og al-kaída krúttkynslóðarinnar.

Mér fannst líka skemmtileg athugasemd höfundarinns um þá staðreynd að flestir mótmælendur séu komnir utan úr heimi sérstaklega til að mótmæla:

" komist undan því að minnast á hinn stóra þátt útlendinga í aðgerðum hópsins, þótt vissulega komi öllu mannkyni við þegar íslenskri náttúru er spillt. Óneitanlega fannst manni þetta sérkennileg birtingarmynd alþjóðavæðingarinnar: ekki þyrfti aðeins að flytja inn vinnuaflið til framkvæmdanna við Kárahnjúka heldur líka mótmælendurna; og ófagur vitnisburður um neysludoða Íslendinga"

Flott orðalag og hnitmiðað. Við þetta vil ég bæta að það er athygisvert að virkjanasinnar skuli finna að mótmælendum fyrir það eitt að vera innfluttir (enda vinnuaflið innflutt eins og bent var á hér að ofan). Forsendan er víst sú að þeir ættu ekki að hafa á málunum nokkra skoðun né vit enda komi það þeim ekki við hvað gerist hér innanlands. Á sama tíma er orkuframleiðslan, og virkjunarframkvæmdin þar af leiðandi, réttlætt í alþjóðlegu samhengi (þar sem sömu orku hefði að öðrum kosti þurft að afla annars staðar með mjög loftlagsspillandi afleiðingum). Því er troðið ofan í kokið á mótmælendum að það sé alþjóðleg skylda okkar Íslendinga að láta "vistvæna" orku í té á sama tíma og útlendingar mega ekki hafa skoðun á framkvæmdunum. Í rökfræði er til sérstakt hugtak yfir svona þversagnir enda auðvelt að snúa út úr málflutningi andstæðingsins með orðagjálfri.

Engin ummæli: