mánudagur, ágúst 27, 2007

Daglegt líf: Ýmis stórinnkaup

Undanfarnar vikur höfum við Vigdís látið verða af ýmsum fyrirhuguðum stórinnkaupum sem lengi hafa vaxið okkur í augum. Okkur vantaði stærra rúm fyrir Hugrúnu (sem er vaxin upp úr vöggunni), ég þurfti nauðsynlega að uppfæra tölvuna mína (sem var orðinn dragbítur í öllum verkefnum) og svo langaði mig mikið til að kaupa vagn fyrir Signýju sem hægt er að tengja við hjól þannig að við getum saman stundað alvöru útivist.

Við létum fyrst vaða rétt upp úr verslunarmannahelgi og keyptum þá þennan frábæra reiðhjólavagn í Erninum. Þetta er rándýr græja sem ég hafði haft í sigtinu vikum saman, en ákveðið að bíða með að kaupa þar til á haustútsölunni. Vagninn er hægt að tengja við hjól eins og ég reiknað með en alls kyns aukafylgibúnaður gerir manni kleift að breyta honum í ýmislegt annað. Það er hægt að breyta honum í skokkvagn (með stóru hjóli að framanverðu) og venjulega kerru (með tveimur nettum kerruhjólu) auk þess sem hægt er að festa hann við mittið og ganga fjöll eða setja undir hann skíði og arka með hann á göngusíðum. Við Signý erum bæði hæstánægð með vagninn og njótum þess að fara yfir torfærur í honum. Hann þolir það vel að skrönglast yfir stórgrýti á stóru hjólunum og þá samsetningu höfum við helst notað til þessa enda dugleg að fara í fjörurnar allt í kring.


Signý í nýju kerrunni
Originally uploaded by Steiniberg.



Nokkrum dögum eftir að ég keypti vagninn frétti ég (hjá sérlegum Macintosh-útsendara mínum) af mjög öflugri tölvu til sölu á ekki nema fjörtíu-þúsundkall! Eftir að hafa gaumgæft tölvuna vel og skoðað með fyrrum eiganda komst félagi minn að því að þetta væri afbragðstölva, mjög öflug (tveir gígabæta örgjörvar), með gott minni og hraðvirk. Hún klárar verkefni á augabragði sem hin réði varla við. Það sem var einna mest traustvekjandi við tölvuna var að fyrrum eigandi notaði hana til að klippa kvikmyndir (starfandi hjá Sjónvarpsstöð) og þurfti bara að losa sig við hana vegna þess að hann var að flytja til útlanda. Gæti ekki verið flottara!

Að endingu, ekki löngu síðar, keyptum við rúm handa Signýju. Hún fékk sem sagt nýtt rúm (eins og þetta hér nema í furu, gult semsagt) á meðan Hugrún fékk, í leiðinni, gamla rúmið hennar Signýjar. Báðar græddu þær á kaupunum. Reyndar var Signý ekkert allt of hress með þetta til að byrja með. Hún hristi hausinn þegar hún kom heim úr leikskólanum (við vorum búin að stilla öllu upp) og tuldraði "nei" fyrir munni sér. Það tók hana nokkra daga að átta sig almennilega á breytingunni og það sem meira var, hún sá að Hugrún fékk rúmið hennar.


Er þetta ekki rúmið mitt?
Originally uploaded by Steiniberg.



Kannski varð hún afbrýðisöm eða upplifði höfnun (Hugrún sefur inni hjá okkur en hún ekki), það vitum við ekki. Kannski fannst henni bara óþægilegt að hafa ekki rimlana. Við brugðum hins vegar á það ráð, til að hvekkja hana ekki frekar, að leyfa henni að sofa uppí hjá okkur fyrstu dagana. Þá vorum við þar saman í einu herbergi öll fjögur - mjög huggulegt - en á endanum fór Signý að sætta sig við nýja rúmið sem næturstað. Það fylgir hins vegar sögunni að Hugrúnu líður afar vel í stóra rúminu, enda var hún farin að bylta sér ansi mikið í vöggunni. Hún sefur lengur og værar en áður.


Breytt herbergi
Originally uploaded by Steiniberg.



Á meðan á öllu þessu stóð vorum við Vigdís nokkuð duglega að skoða íbúðir og fundum reyndar eina sem okkur langaði mikið í. Það munaði því pínulitlu að við keyptum íbúð í mánuðinum. Hún var bara verulega á mörkum þess að við réðum við hana og við þurftum að hugsa okkar gang. Á meðan fór hún tiltölulega snögglega (með manni og mús :-) og við skimum enn eftir nýrri. Reyndar er enginn asi á okkur. Við erum enn í traustu húsnæði á lágri leigu. Það er bara orðið ansi þröngt og farið að reynda fullmikið á þolinmæðina og leiðinlegt að horfa upp á íbúðarverð hækka mun hraðar en maður nær að safna.

En þetta er nú það helsta sem á daga okkar hefur drifið að undanförnu (fyrir utan það að ég skuli vera byrjaður að vinna aftur). Vegna tölvubreytinganna hef ég trassað það að setja myndir á netið (sem ég hafði lofað nýlega að gera) en það fer að detta inn heill hellingur núna í vikunni. Þá sýni ég m.a. nýja rúmið, nýja vagninn og eitthvað fleira.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Ég get vel ímyndað mér að það sé að verða þröngt um ykkur í Granaskjólinu. Vonandi finnið þið íbúð við hæfi fljótlega.

Óska systrunum til hamingju með nýju rúmin og fararskjótann. Við erum einmitt í rúmahugleiðingum fyrir Áslaugu Eddu þessa dagana og ég var búin að fá augastað á sams konar rúmi og Signý fékk :-)

Steini sagði...

Ég mæli alveg með þessu rúmi. Það er með uppháa gafla sem hægt er að leggja niður (og stækka rúmið þannig). Ætti að endast í nokkur ár í það minnsta. Gaflarnir eru þykkir og traustir og eru skemmtilegir sem hillupláss fyrir brúður og leikföng, en Signý notar það óspart sem leiksvæði.

Rúmið er opið beggja vegna (engir rimlar sem sagt). Við höfðum smá áhyggjur af þessu vegna þess að Signý byltir sér talsvert í svefni. Það reddast vegna þess að rúmið er ekki notað sem frístandandi húsgagn. Önnur hliðin lokast upp að vegg og hin hliðin er bara hálfopin vegna þess að við stilltum myndarlegum skúffuskenk upp að rúminu. Sem sagt, þetta kemur ljómandi vel út. Sérstaklega sem áhugavert leiksvæði sem hægt er að hoppa upp í og úr.