Í vikunni fór ég ítrekað um borð í geysistórt trúboðsskip sem lá við Ægisgarð (eða er það Ægishöfn?). Skipið er nefnilega stórmerklegt. Það er jú kristilegt, sem er í raun aukaatriði í mínu tilviki. Aðalmálið er að skipið er fljótandi bókamarkaður með bækur utan úr heimi (amerískar) á lygilega lágu verði (undir markaðsverði þar ytra). Helmingurinn tengist trúboði og kristilegu efni með ýmsum hætti eins og búast mátti við (fyrirlestrar um andleg málefni, tilraunir til að afhjúpa "lygi" þróunarkenningarinnar, Biblíur, sniðugar myndabækur fyrir börn og svo framvegis). Hinn helmingurinn er hins vegar gulrótin. Sá bókakostur bitastæður í meira lagi: Fræðibækur af öllum toga auk mjög vandlega úthugsaðra barnabóka og kennslubóka í ýmsum greinum. Sérstaklega leist mér vel á kennslubækurnar frá mileskelly útgáfunni (Smellið svo á "reference titles" ef þið viljið sjá dæmi um vel heppnað kennsluefni fyrir börn og unglinga).
Ég fór fyrst á stúfana sjálfur á sunnudaginn var, lét síðan skólann minn vita og fékk leyfi til að láta greipar sópa í kjölfarið, ásamt kollegum mínum (til að styðjast við ígrundað meirihlutaálit). Við misstum okkur hins vegar öll og komum til baka með fimm troðfulla poka af vönduðum skólabókum (á ekki nema um tíu þúsund kall!) Betra en markaðurinn í Perlunni, svo mikið er víst. Sjálf keyptum við líka bækur handa okkur sjálfum, svona til hliðar. Síðan þá hef ég kíkt aftur í þeim tilgangi að finna góðar bækur hana Signýju (frábærar barnaorðabækur, límmyndabækur og fleira). Næst kíki ég á matreiðslubækurnar og huga að afmælisgjöfum og jólagjöfum í leiðinni.
Skipið er í höfn fram á þriðjudaginn 28. þessa mánaðar (sem er síðasti opnunardagur). Ekið fram hjá Búllunni.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli