mánudagur, ágúst 20, 2007

Daglegt lif: Menningarnóttin

Menningarnóttin var aldeilis stórskemmtilegur dagur. Dagurinn (sem kennir sig við nótt) byrjaði á því að við Signý fórum í fjöruferð við Ægissíðuna. Þar sá ég gæslumann standa á miðjum veginum, á einhverjum nýmáluðum línum. Ég var alveg búinn að gleyma maraþonhlaupinu en var ekki lengi að vinda mér að kallinum og spyrja hann hver staðan væri. Hann sagði að fjöldi hlaupara hefði farið fram hjá fyrir stuttu en að rétt á eftir ætti hann von á þúsundum í viðbót (skemmtiskokkararnir voru ræstir seinna en hinir). Við Signý vorum hvort eð er í skoðunarferð um Ægissíðuna og komum okkur bara vandlega fyrir í grjótinu og horfðum á fólkið streyma fram hjá. Þetta var svolítið magnað. Næst verð ég með myndavél, það er alveg klárt.

Eftir hádegi, þegar Signý var vöknuð af hádegisblundinum, fórum við fjögur niður í bæ. Veðrið var glimrandi allan daginn og ekki hægt að hugsa sér betri Menningardag. Við fórum markvisst í bæinn án nokkurrar áætlunar (vegna þess að með tvö börn er harla ólíklegt að maður geti haldið striki þannig að það byði bara upp á svekkelsi að byggja upp væntingar). Við komum okkur bara fyrir á Austurvelli og skoðuðum mannlífið. Hittum Ólöfu systur Vigdísar og héldum hópinn þar í góðu tómi. Hittum auðvitað fullt af fólki. Mér fannst gaman að sjá hvað mannlífið var líflegt og afslappað. Venjulega á degi sem þessum finnst mér eins og fólk sé á fullu að elta eitthvað, spenna sig upp og arka út og suður. Núna var andrúmsloftið allt öðruvísi. Kannski var það vegna þess að tónleikarnir á Miklatúni voru á sama tíma og léttu þar með verulega á þvögunni (það var vel hægt að labba um með barnavagna í miðbænum). Borgin minnti mig í fyrsta skipti á alvöru stórborg þar sem iðandi mannlíf er meira en bara þreytt þvaga. Fólk alls staðar spókaði sig og naut alls þess sem var í boði, sitjandi, flatmagandi eða sötrandi.

Ekki fylgdumst við með neinu af viti svosem, en mér fannst sérlega skemmtileg uppákoma í litlu hvítu útihátíðartjaldi á Austurvelli. Þar var búið að reisa "Lifandi bókasafn". Nafnið eitt vakti furðu mína, svo ég kíkti inn. Þá sá ég aðra fyrirsögn "Skoraðu fordóma þína á hólm!". Svo fattaði ég þetta: Þarna sátu fyrir svörum talsmenn ýmissa minnihlutahópa og buðust til að ræða við hvern sem er um lífsstílinn og menninguna sem þeir standa fyrir. Þarna voru skráðir til leiks forsvarar múslima, lesbía, útlendinga, klæðaskiptinga, svertingja, fatlaðra og svo framvegis. Frábær hugmynd, vægast sagt, en mér fannst heldur tómlegt um að litast í tjaldinu. Ætli fólk hafi ekki haft hugann frekar við það að slappa af í bænum en að velta sér upp úr svona áleitnum viðfangsefnum?

Þegar heim kom hvatti ég Vigdísi til að fara í bæinn aftur og hitta vinkonur sínar um stund og horfa á flugeldana. Ég treysti mér fyllilega til að vakta dætur okkar á meðan þær sofa, að sjálfsögðu. Þetta gerum við allt of sjaldan, að skipta liði svona (það er þá oftar á hinn veginn), en Vigdís tók boðinu fegins hendi. Á meðan heyrði ég í flugeldunum og virti fyrir mér mannlífið í götunni. Ég get svarið það, ég hef aldrei séð gestkvæmt í eins mörgum húsum í götunni áður. Þetta kvöld er að verða nokkuð rótgróið í þjóðarvitundinni. Það þykir ábyggilega nokkuð dannað að fara í heimahús og skemmta sér á menningarnótt. Að minnsta kosti sá ég furðu margt vel fullorðið fólk ráfa um Granaskjólið, vel í glasi og hresst, á meðan ómurinn af spjallinu eða hlátrasköllunum úr að minnst kosti fjórum húsum barst út á götu. Mér fannst þetta allt afar huggulegt. Þetta var eins og að vera í miðju samkvæmi, en samt algjörlega óáreittur.

Engin ummæli: