föstudagur, ágúst 31, 2007

Upplifun: Fagnaðarfundir

Það er alltaf gaman að taka á móti Signýju í leikskólanum. Hún hrópar upp yfir sig "pa-ba" og ljómar öll. Ég hef tekið eftir því að þetta er líka ákveðið ánægjuefni hjá starfsfólkinu. Þegar ég gægist fyrir hornið á hana leika sér (og læt lítið fara fyrir mér) þá er sá starfsmaður sem fyrstur tekur eftir mér mjög fljótur að vekja athygli Signýjar á því að ég sé kominn og brosir svo í kampinn. Í gær var hún stödd í "salnum" (sem er ílöng stofa með púðum og grindum) og var stödd í fjærendanum þegar ég gægðist inn. Við það að taka eftir mér kom hún hlaupandi, tiplandi á táberginu, og stökk í fangið á mér (svona eins og "Húsið á sléttunni", ef menn muna eftir því). Þetta var í fyrsta skiptið sem ég sá hana virkilega hlaupa með þessum hætti. Ég tók þess vegna sérstaklega eftir því hvernig hún hljóp (hún er táfeti mikill). Ég velti því fyrir mér ósjálfrátt hvort hún væri að ná þessari hreyfifærni fyrst núna eða hvort hún gæti einfaldlega ekki hlaupið heima sökum plássleysis (þar sem þröskuldar og hurðir eru á alla kanta og herbergin frekar þröng). Seinna um daginn komu gestir í heimsókn til okkar og þá sá ég hana rjúka að dyrum, skoppandi með sínum hætti, á svipaðan hátt og í leikskólanum. Hún er bara orðin býsna örugg með sig. Það munar greinilega um leikskólann því hér heima hefði hún fengið minni hvatningu til að hlaupa um (í göngutúrum erum við svo róleg, að það er eiginlega heldur ekki að marka). Nú er hún búin að vera í leikskólanum samfellt í þrjár vikur án þess að veikjast, og það er gleðiefni fyrir okkur sem erum minnug þess hvað sumarið var erfitt að þessu leyti.

Engin ummæli: