mánudagur, september 19, 2005

Daglegt líf: Tvö kornabörn

Við Vigdís höfum ekki afrekað mikið síðustu daga annað en það að sinna heimilinu og heilsa upp á vini og vandamenn. Upp úr standa þó tvær heimsóknir þar sem kornabörn léku aðalhlutverkin. Hjá Bjarti og Jóhönnu dormaði veraldarvanur drengur (að því er virtist) sem gjóaði til okkar öðru auganu. Vigdís fékk að halda honum um stund og við það brast hann í myndarlegan hlátur, öllum til undrunar. Þetta á víst ekki að vera hægt á þessum aldri. Nokkrum dögum síðar (reyndar bara í gær) fórum við til Sigga bróður og þurftum þar að tipla á tánum vegna þess að drengurinn á þeim bæ var nýlega sofnaður. Hann er fyrirburi og á enn nokkuð í land með að braggast almennilega en virðist þó vera að ná sér eftir erfiða törn undanfarna daga. Ónæmiskerfið er sérlega viðkvæmt hjá fyrirburum en það styrkist jafnt og þétt eftir því sem á líður. Vonandi var heimsókn okkar bara liður í því þroskaferli.

Engin ummæli: