Við Vigdís skelltum okkur í sumarbústað um helgina og eyddum tímanum með vinum og vandamönnum í gönguferðum og spilamennsku, eins og gerist og gengur í svona sveitadvöl. Pictionary vakti sérstaka lukku og þróaðist hjá okkur smám saman tungumál sem helgað var þessari spilamennsku. Spilið gengur sem sé út á að tveir meðspilarar skiptast á að teikna mynd af einhverju fyrirbæri, hlut eða hugmynd, á meðan hinn giskar á hvað það er sem verið er að draga fram. Þar sem teiknarinn má ekki gefa neina vísbendingu öðruvísi en með teikningu, hvorki með tölum né bókstöfum, og tíminn afar takmarkaður býður leikurinn upp á mikið óðagot og læti. Hér eru markviss vinnubrögð lykillinn að árangri. Við leyfðum sem sé ákveðin grunnsamskipti.
Við ákváðum að leyfa leiðandi spurningar þannig að hægt er að spyrja strax í upphafi hvort um lýsingarorð eða nafnorð er að ræða og svo framvegis. Teiknarinn má sem sagt gefa já og nei til kynna þannig að spyrjandinn gæti þess vegna verið í spurningaleiknum "hvert er fyrirbærið" nema hvað, hann fær til baka teiknaðar vísbendingar. Þegar viðkomandi er að komast á sporið má teiknarinn jafnframt gefa bendinguna "komdu" og á sama hátt bendingu um "stopp" þegar farið er í vitlausa átt. Svo komumst við að því að þegar rétta "merkingin" er komin en svarið reynist samt sem áður annað orð, kannski langsótt samheiti, er nauðsynlegt að geta gefið það til kynna með einhverjum hætti. Í þeirri stöðu gáfum við merkið "samasem" með vísifingri og löngutöng (líkist vaffi). Þá er áherslan lögð á að finna rétt "orð" eða frasa fremur en merkingu. Til að gera spilið enn markvissara leyfðum við kassatáknkerfi þar sem einn kassi táknar svar sem felur í sér eitt orð, tveir kassar tákna tveggja orða svar og svo framvegis. Tveir samliggjandi kassar merkja samsett orð. Sem sagt, með þessu táknkerfi er hægt að spila spilið mjög markvisst og elta uppi nánast ómöguleg orð. Það getur verið ótrúlega skemmtilegt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli