laugardagur, september 10, 2005

Tónlist: The Pixies í sveitabúningi.

Ég varð fyrir undarlegri tónlistarupplifun í gær. Fór á Kaffi Hljómalind, eitthvað að grúska, og heyrði að þeir voru að spila Pixies, Surfer Rosa, eina af mínum uppáhalds plötum. Ég er vanur að hlusta á þetta á tyllidögum, hækka vel í og fara í einhvers konar ham sem ég kann ekki að lýsa hér. Tónlistin er kraftmikil og ögrandi. Það hvarflaði að mér rétt sem snöggvast að fara á annað kaffihús því ég kunni ekki alveg við þetta í "Easy Listening" gírnum. En ég sat áfram og fann smáma saman að þetta var nú bara notalegt. Maður þekkir tónlistina það vel að hún einfaldlega virkar, svona eða hinsegin. Kannski er þetta eins og með Bítlana, hugsaði ég með mér, sem eitt sinn voru ögrandi og djarfir en eru í dag notaðir á látlausan hátt sem veggfóður. Pixies eru komnir á þann sama stall. Sameiningartákn ákveðins hóps sem man eftir "byltingunni". Ég velti þessu eitthvað fyrir mér áfram en hélt svo áfram að lesa og naut þess bara að vera hluti af þessu samfélagi, með Pixies seytlandi í bakgrunni, fyrst Surfer Rosa og svo fyrsta platan, Come on Pilgrim. Þá fór ég að heyra tónlistina á annan hátt en ég var vanur. Þeir minntu mig allt í einu á ameríska þjóðlagadiskinn sem ég tók að láni um daginn (sjá síðustu færslu). Bjagaður og ákaflega frumstæður gítarleikur minnti mig á afdala banjóleikara sem syngur meira af mætti en getu og notar til þess alla sálina. Ég heyrði einfaldlega í fyrsta skipti hvernig tónlist Pixies skírskotar til amerískrar þjóðlagahefðar eins og hún leggur sig, sprettur upp úr jörðinni, svo að segja. Ég hef alltaf séð þetta fyrir mér sem eins konar hart rokkað flamengópönk en það hafði eiginlega farið fram hjá mér hvað tónlistin er náttúruleg, afslöppuð, eðlileg og laus við öll höft. Kiddi kanína, sem eitt sinn rak plötubúð á þessum sama stað, orðaði þetta alltaf mjög hnyttið þegar hann kallaði Pixies og aðrar sambærilegar sveitir indjánarokk. Nákvæmlega það.

"Cariboooou........."

Engin ummæli: