mánudagur, október 10, 2005

Tónlist: Stafrænn iPod og gamaldags Doors

Undanfarna mánuði hef ég komist upp á lagið með að hlusta á stafræna tónlist í bílnum með hjálp iPodsins sem við Vigdís keyptum á Kanarí í mars. Ég á svona "snúruspólu" sem tengir stafrænar græjur (hvort sem það er geislaspilari eða nútíma iPod), við kassettutækið í bílnum. Vigdís situr venjulega með litlu græjuna í lófanum og stýrir tónlistinni á meðan ég passa mig á umferðinni. Frábær græja. Hljómsveitin Air hefur verið í miklu uppáhaldi hjá okkur enda lifandi og geysilega skapandi stemningstónlist þar á ferð. Allt safnið passar í lófann og meira til. Nýlega hefur þó dregið til tíðinda. Ég skellti venjulegri spólu í tækið með gamalli vínylupptöku tveggja Doors platna (Waiting for the Sun og Morrison Hotel). Eins og iPodinn er nú fínn þá á stafrænn hljómurinn ekki roð í snarkandi, mjúkan hljóminn af vínylnum. Ég á reyndar Doors á geisladiski, allt safnið, en hef aldrei haft gaman af að hlusta á það. Nú veit ég af hverju. Hljómurinn er eitthvað svo hrikalega "dauður" á geisladiskinum. Hljómsveitin samdi vissulega frábær lög en það er ekki síður geggjað að heyra öll blæbrigðin í flutningnum, surgið í röddinni þegar Morrison hvæsir, blautan hljóminn þegar hann slakar á og ólgandi spennuna á milli hljóðfæra. Þetta heyrist ekki á geisladiski. Ég tékkaði sérstaklega á þessu eftir að hafa vart haldið vatni yfir "blautum" hljómnum í bílnum. Steindautt. Lög eins og "The Unknown Soldier", "Spanish Caravan", "Waiting for the Sun" og "Queen of the Highway" hljóma hins vegar eins og magnaður galdraseiður í "analog" (hliðrænum) hljómburði. Munurinn er lygilegur. Ég er að minnsta kosti forfallinn Doors-unnandi þessa dagana, - svona á meðan ég skýst á milli húsa.

Engin ummæli: