laugardagur, október 15, 2005

Vídeó: Hotel Rwanda

Við létum fara vel um okkur heima í gærkvöldi með vídeóspólu og eitthvað til að narta í. Ég fékk að velja spóluna og í ljósi þess að ég er nýbúinn að kynna mér afrísk þjóðarmorð ákvað ég að taka Hotel Rwanda. Sagan minnir óneitanlega á sögu Schindlers í seinni heimsstyrjöldinni, svona í grunninn. Aðalsöguhetjan er með tengsl við ýmsa háttsetta menn beggja megin víglínunnar, telst formlega til þeirra sem að þjóðarmorðinu standa en er hliðhollur fórnarlömbunum og reynir að koma þeim undan. Myndin er góð en er þó langt því frá að vera hnökralaust meistaraverk. Handritið, ýmsar samræður, persónusköpun og tilfinningaleg viðbrögð fólks við hryllingnum í kring virka stundum svolítið ósannfærandi. Myndin er samt geysilega áhrifamikil og segir frá atburðum sem enginn ætti að leiða hjá sér. Ég er ekki frá því að það mætti gera hana að skylduáhorfi í framhaldsskólum landsins. Það er pæling út af fyrir sig: Hvaða myndir kvikmyndasögunnar eru best til þess fallnar að vekja fólk til vitundar um eðli átaka, kúgunar og misréttis í gegnum tíðina? Ég man í fljótu bragði eftir Mississippi Burning þar sem hliðstæð kúgun átti sér stað í suðurríkjum Bandaríkjanna. Ég man hvað ég varð reiður fyrir hönd svartra þegar ég sá hana fyrst.

Engin ummæli: