föstudagur, október 21, 2005

Tónlist: Snilldar spilagleði

Við Vigdís gerðum okkur dagamun og skelltum okkur í gærkvöldi á tónleika á Rússnesku hátíðinni í Kópavogi. Terem-kvartettinn umtalaði spilaði í Salnum og bauð upp á alls kyns tónlistarkokteila af þjóðlegum og klassískum uppruna, í bland við leiftrandi húmor. Ég hafði heyrt talað um þá árum saman en spunagleðin, hugmyndaflugið og útgeislunin var mun meiri en ég þorði að vona. Þetta er sko sönn tónlist, spiluð af lífi og sál. Þeir eru tilfinningalega mjög djarfir, þora að leika sér með tónlistina og teygja hana á alla kanta - jafnvel taka ráðsett tónverk (eins og frægu fúguna hans Bach) og setja í tuttugu mínútna þjóðlagaútgáfu sem gefur upprunalegu útgáfunni ekkert eftir. Stórkostlegt. Ég set þessa sveit hiklaust á sama stall og Kronos-kvartettinn og the Kings Singers eftir þessa upplifun. Ég klappaði svo duglega að tónleikum loknum að lófarnir þrútnuðu.

Engin ummæli: