Undanfarnar vikur höfum við haldið aðstandendum okkar í eins konar andlegri gíslingu. Þau hafa iðað í skinninu eftir að fá að vita hvors kyns barnið okkar er. Við ákváðum á sínum tíma að svarið skyldi sett í umslag. Umslagið er nú búið að liggja í skúffu rúma tvo mánuði. Í dag rann hins vegar stóri dagurinn upp.
Við buðum foreldrum mínum og mömmu Vigdísar í heimsókn. Það vildi svo til að þau höfðu aldrei hist. Það hefur auðvitað lengi staðið til að breyta því en röð tilviljana hefur haft sínu fram. Þar með sáum við Vigdís í hendi okkar að þetta einstaka tilefni, opnun umslagsins, væri kannski tilvalið fyrir þau til að hittast í fyrsta skipti. Þau komu því öll mjög spennt, þáðu veitingar og skiptust á sögum og ljósmyndum.
Eftir dágóða dvöl í góðu yfirlæti kom að því að við gátum ekki beðið lengur. Lágvær stemningstónlist í bakgrunni var skrúfuð niður. Við Vigdís settumst hlið við hlið og gægðumst varlega ofan í umslagið og þar stóð: Með kveðju, stúlka (og svo kom svona fallegt stúlkutákn með hring og krossi). Við litum hálf feimnislega á hvort annað og réttum svo umslagið hringinn. Þau reyndu að ráða fram úr svipnum, kímin og spennt, en kíktu að lokum ofan í sjálf.
Með þessu hefst lokaspretturinn hjá okkur Vigdísi. Framhaldið er orðið áþreifanlegra og, umfram allt, persónulegra. Við hlökkum til að taka á móti litlu dóttur okkar eftir tæpa þrjá mánuði.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli