Krisján tók sig til og "klukkaði mig" um daginn. Þetta er víst eins konar netleikur í keðjubréfaformi þar sem bloggarar skora á nokkra aðila í vinahópnum til að afhjúpa fimm leyndarmál um sjálfa sig. Leyndarmálin þurfa í sjálfu sér ekki að vera feimnismál, bara eitthvað forvitnilegt sem tiltölulega fáir vita. Og nú er komið að mér. Látum okkur sjá:
1. Menn þekkja líklega flestir föðurnafn mitt, sem er afar sjaldgæft (Berghreinsson) en færri vita að ég ber millinafn. Guðni.
2. Mér tókst einu sinni að sigra í skemmtiskokki á Reykjavíkurmaraþoninu. Þetta var bara sjö kílómetra skokk og náungarnir tveir sem voru á undan mér hlupu vitlausa leið. Ég var hálf svekktur yfir því að fá engin verðlaun.
3. Ég er mjög eldhræddur. Kveiki helst ekki á kerti nema ég geti fylgst með því gaumgæfilega. Á sama frumstæða hátt er ég haldinn sprengjufælni. Ég hrekk mjög auðveldlega við hvelli, jafnvel flass úr myndavél, og þoli alls ekki flugelda. Fer helst ekki út úr húsi á gamlárskvöld því mér finnst allar raketturnar stefna beint á mig.
4. Innhverf íhugun veitir mér dýpstsu hvíld sem ég þekki. Hana lærði ég fyrir tæpum fimmtán árum. Hún er stunduð tvisvar á dag, tuttugu mínútur í senn. Ég á það til hins vegar til að gleyma henni vikum, jafnvel mánuðum, saman.
5. Mér finnst best að nota sundgleraugu við að skera lauk.
Ég klukka hér með Bjart Loga og Jóhönnu Ósk. Klukk!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli