Við Vigdís erum búin að hafa það náðugt frá áramótum og verðum saman í fríi næstu tvær vikurnar; þá fer ég að vinna aftur. Það sem af er árinu höfum við séð þrjár markverðar bíómyndir.
Fyrst var það franska myndin Les Choristes sem við tókum á spólu yfir áramótin. Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með hana því væntingarnar voru nokkuð miklar. Hún fjallar um kennara sem tekur að sér kennslu í skóla fyrir erfiða krakka og, eins og í öðrum sambærilegum kennaramyndum, þá nær hann undraverðum árangri. Hann notar kórsöng til að ná til krakkanna. Myndin er nokkuð hefðbundin og fyrirsjáanleg en umgjörðin er skemmtilega súrrealísk; gerist uppi í sveit á afskekktu setri og hefur fyrir vikið yfir sér sérkennilegan gamlan blæ. Stereótýpurnar eru heldur ekki þær sömu og maður er vanur úr bandarískum myndum af sömu gerð. Það gerir myndina líka svolítið skemmtilega. Handritið er hins vegar nokkuð gloppótt og skýrir aldrei almennilega út hvernig hann nær til krakkanna, sem er náttúrulea aðalmálið. Það bara gerist smám saman. Án væntinganna hefði ég eflaust verið afar sáttur við myndina því hún er fín afþreying og uppbyggileg.
Stuttu síðar sáum við í sjónvarpinu spænsku myndina Habla con ella. Hún kom okkur verulega á óvart fyrir það hvað efnistökin voru óvenjuleg, persónusköpun frábær, fléttan frumleg og hvernig myndinni tókst að vera bæði hneykslanleg og manneskjuleg. Maður meðtekur breyskleika persónanna og lifir sig inn í hlutskipti þeirra af samúð. Snilldarleg mynd - en hún er hæggeng þessi og krefst þess að maður sé vel upplagður.
Að lokum var það mynd sem við horfðum á í DVD í gærkvöldi: Control. Þetta er þriller af bestu gerð og fjallar um tilraun sem fer út um þúfur (ekki ósvipað Das Experiment). Hugmyndin að baki myndinni er góð. Lyfjafyrirtæki nælir sér í dauðadæmdan fanga, kemur honum undan dauðasprautunni og fær að gera tilraun með nýtt lyf á honum. Lyfið á að breyta skapgerð hans og mýkja forhertan glæpamanninn. Til að hann þekkist ekki á götu úti er andlitinu einnig breytt (núna hljómar þetta eins og "Face/Off"). Á gaurinn reynir ekki í alvöru fyrr en honum er komið fyrir í sjálfu samfélaginu í lítilli íbúð; þar þarf hann að spjara sig á eigin spýtur. Það reynist flóknara en upphaflega var ætlað. Í stuttu máli gengur handritið vel upp; nógu vel til að halda athyglinni til enda. Nokkrar óvæntar fléttur koma meira að segja aftan að manni á ögurstundu. Myndin er alls ekkert meistaraverk en traust afþreying engu að síður.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli