Í vikunni lentum við Vigdís í hrikalegu ógeði þegar jólaölbrúsi lak inni í geymslu, með tilheyrandi lykt og klístri. En við föttuðum það ekki strax. Við héldum fyrst að lyktin kæmi úr endurvinnslupoka þar sem við söfnum saman dósum. Í honum var myndarlegur pollur af brúnu jukki. Eftir að ég hafði hreinsað hann burt hélt ég að lyktin myndi hverfa, en það gerðist ekki. Alltaf var sama rónastækjan í anddyrinu hjá okkur. Þá tók ég pokann og setti hann út og hótaði honum (eða þannig) að ég myndi þrífa hann með sjóðandi vatni næst. Þar geymdi ég hann um stund og leit aftur inn í geymslu og sá mér til hrellingar að sama brúna jukkið lá snyrtilega í einu horninu á tómum pappakassa sem lá þar einhvern veginn á ská þvert yfir geymsluna. Pappakassanum varð náttúrulega ekki bjargað, enda hornið með brúna pollinum algerlega gegnsósa. Þegar honum var lyft snyrtilega, á leiðinni út í ruslafötu, birtist þá óhugnaðurinn í öllu sínu veldi. Brúnu sletturnar voru á gólfinu undir kassanum líka, og taumarnir lágu upp í hillu, um það bil í andlitshæð þar sem ég kom auga á jólaölsbrúsann. Um einn og hálfur lítri af þessu fljótandi klístri hafði þá seytlað niður í marga daga án þess að mikið bæri á (annað en lyktin). Það varð þess valdandi að ég tók mig til og tók geymsluna í gegn, eftir dágóða stund af óráðsstunum og ósjálfráðum blótsyrðum sem heyrðust alla leið inn í stofu.
Þrátt fyrir þetta var ég að sumu leyti feginn þessari ógeðfelldu hvatningu til að taka til því það hafði staðið til lengi. Ég var líka mjög feginn því að ekkert ómetanlegt skyldi hafa legið undir brúsanum annað en töskur sem ég gat hreinsað (og ein sem fór í ruslið, enda ljót fyrir) og gamlar kassettur sem rétt sluppu fyrir tilstilli plasthylkjanna. En af þessu lærði ég líka tvö mikilvæg atriði sem ég ætla að hafa vandlega í huga hér eftir:
1) Aldrei geyma jólaöl annars staðar en í ísskáp, í neðsta hólfi. Mér var sagt, eftir á, að brúsinn hefði allt eins getað sprungið ef hitasveiflurnar hefðu verið meiri. Þann óhugnað vildi ég helst ekki þurfa að ímynda mér, hvað þá upplifa.
2) Maður skyldi aldrei hafa geymsluna svo þétt skipaða (úttroðna) af dóti og drasli að maður hafi ekki skýra yfirsýn yfir hana jafn óðum. Ég leyfði tilgangslausum kössum að fljóta nokkuð frjálslega um og hylja gólfið - og því fór sem fór.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli