Vinnan hófst á ný í vikunni og það var virkilega erfitt að vakna svona snemma eftir langt frí. Það var eins og að rífa sig upp um miðja nótt. Kennslan gekk hins vegar vel þrátt fyrir syfjuna og sljóleikann í mér, enda óvenju fáir og meðfærilegir nemendur í skólanum þessa dagana.
Eins og áður var ýjað að einkenndist barneignarfríið, sem nú er á enda, af óreglulegum vökum og vídeóglápi. Það er því gaman að impra á þeim bíómyndum sem við höfum haft fyrir að horfa á. Þær eru ákaflega ólíkar innbyrðis, en eru allar áhugaverðar á einhvern hátt:
Mr. and Mrs. Smith: Ótrúlega vel heppnuð glanshasarmynd. Hún er smekklega útfærð og stíliseruð en er blessunarlega laus við allt yfirgengilegt tæknibrellujukk. Tæknin þjónar sögunni og stílnum fyrst og fremst enda er myndin falleg, flott, sexý og skemmtileg. Jolie og Pitt glansa á skjánum. Sagan sjálf er að mörgu leyti frumleg og handritið laust við leiðinlegar klisjur. Atriðin eru töff, plottið er vel hugsað og lokin eru smekkleg. Ögn dýpri en meðal Bondmynd, og það fer vel á því.
The War of the Worlds: Að mörgu leyti misheppnuð mynd og hálf tilgangslaus, en það er líka margt til að gleðjast yfir. Í fyrsta lagi er gaman að sjá Tom Cruise leika mjög "ósympatískan", sjálfumglaðan en misheppnaðan gaur. Hann er mjög sannfærandi. Í öðru lagi er gaman að sjá breska sögu lifna við á amerískum grunni. Í þriðja lagi er gott hvað spennuatriðin og öll uppbyggingin laus við yfirdrifna dramatík. Sagan er bara sögð á tiltölulega látlausan hátt og það gerir það að verkum að hægt er að njóta þess að horfa á hana í friði á eigin forsendum. Svo eru mörg atriðin útfærð mjög smekklega. Hins vegar eru veigamiklir og hálf undarlegir hnökrar í frásögninni (og liggur skýringin líklega einhvers staðar á klippiborðinu). En samt, að mörgu leyti prýðileg afþreying.
A Clockwork Orange: Þessa horfði ég á í þriðja skipi. Snilld. Ólýsanleg snilld í alla staði. Myndin er mjög yfirgengileg og hneykslanleg og hiklaust með frumlegustu og best heppnuðu myndum allra tíma.
Battle Royale: Þessi umdeilda japanska mynd kemur á óvart. Fyrst hélt ég myndin væri í blóðslettustíl en komst að því að svo væri ekki. Hún hafði að geyma dulinn og merkilega djúpan áróður á samfélagið og stríðsrekstur almennt. Fullt af smærri frásögnum og uppgjörum sögupersónanna vekja mann til umhugsunar um ýmis dýpri gildi. Óhugnaðurinn situr hins vegar eftir. Ekki myndrænt heldur hugrænt, því það eru kringumstæður sögupersónanna sem sitja í manni. Handritið er virkilega flott.
Almost Famous: Vá! Þvílík gersemi. Ein mesta "feelgood" mynd sem ég hef séð í mörg ár (ég man í fljótu bragði eftir "Billy Elliott" og "Fucking Aamaal" svona til samanburðar). Þetta er þroskasaga ungs drengs sem fær umboð frá Rolling Stone tímaritinu til að elta þekkta rokkhljómsveit í því skyni að ná af þem tali, en lýsa í leiðinni hljómsveitarbrölti þeirra, lífsstíl og persónum. Fyrr en varir er drengurinn kominn á bólakaf í þetta ævintýralega líferni. Og við með. Myndin lýsir unaðslega samtímanum (1973) og öllum þessum hráa en frjálsa lífsstíl. Maður fann næstum því vínyllyktina inn í stofu til sín. Persónusköpunin í þessari mynd er með ólíkindum góð; persónur, fullar af töfrum og breyskleika.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Eftir að hafa horft á "Almost Famous" fann ég mig knúinn til að lesa mig til um hana. Á Rottentomatoes-vefnum var mælt sérstaklega með nokkrum myndum í kjölfarið á henni. Ég skráði þau hjá mér á miða en fattaði eftir á að best væri að skrá það hér fyrir neðan (miðanum týni ég of auðveldlega).
Myndirnar hér fyrir neðan fjalla margar um tiltekna tónlistarmenningu og ná að lýsa vel tíðaranda í kringum hana. Margar eru eins konar þroskasögur og nokkrar þeirra eftir sama leikstjóra. Ef einhver hefur séð mynd á þessum lista þá væri gaman að heyra það:
Léolo
24 hr. Party People
Dazed and Confused
Say Anything
Jerry Maguire
Singles
Raising Victor Vargas
Skrifa ummæli