sunnudagur, janúar 22, 2006

Sjónvarpið: Eurovisionforkeppni

Við horfðum á sjónvarpið í gær og skemmtum okkur konunglega yfir létt flippuðum spurningaþætti um Eurovision og horfðum svo á fyrstu forkeppnina í kjölfarið. Við vorum eiginlega hissa á því hvað lögin voru vönduð og góð. Af átta fannst okkur fjögur vera mjög vel heppnuð.

Ómar var með skemmtilega nostalgíu sem fór hvergi yfir væmnu mörkin þó lagið hafi verið þrungið tilfinningu og söknuði. Söngvarinn Friðrik Ómar brilleraði í píanopopplagi í anda "Oliver´s Army/Elvis Costello" og Abba. Fyrir utan nokkuð hefðbundna hækkun undir lokin var lagið laust við klisjur og smitaði út frá sér í frábærum flutningi. Regína Ósk var ekki síðri stuttu seinna með sérlega mögnuðum söng. Lagið var þjóðlegt og klassískt í senn. Mér hefur eiginlega alltaf fundist Regína vera svona ekta bakraddasöngkona; svolítið karakterlaus fyrir aðalrödd; en þarna glansaði hún eftirminnilega með karlakórsraddirnar á bak við sig. Svo var Davíð Olgeirsson með flott lag í anda Justin Timberlake plötunnar nýju. Staccato gítargrip og smellt í fingri. Töff og grípandi.

Þjóðin var, aldrei þessu vant, sammála mati okkar Vigdísar á því hverjir sköruðu fram úr; einmitt þessi lög komust áfram. Það hvetur okkur hér í Granaskjólinu til að fylgjast grannt með næstu vikurnar. Eiginlega ekki annað hægt því við leyfðum okkur þann munað að senda inn atkvæði og höfum því fjárfest í framhaldinu.

Mælum með því að fólk smelli á tengilinn hér fyrir ofan til að hlusta nánar á lögin.

Engin ummæli: