Fyrir tveimur dögum síðan fór ég á tvenna stórtónleika, geri aðrir betur. Það stóð reyndar aldrei til vegna þess að tímasetning þeirra stangaðist óþægilega á við áætlaðan fæðingardag í byrjun ársins. Það sannast því hér með enn einu dæminu hversu snilldarleg tímasetning fæðingarinnar var. Vegna þess hversu snemma sú litla kom í heiminn þá var heimilislífið komið í jafnvægi þeim mun fyrr. Með semingi yfirgaf ég hins vegar mæðgurnar sem sátu heima þetta laugardagskvöld.
Tónleikarnir sem voru í vændum voru ekki af lakari endanum enda fór um mig í bæði skiptin er ég frétti af þeim á hausmánuðum. Annars vegar var það ein virtasta söngsveit samtímans, The Tallis Scholars (sem hefur undanfarinn aldarfjórðung sérhæft sig í tónlist miðalda með byltingarkenndum upptökum og rannsóknum). Hins vegar voru það áróðurstónleikarnir Ertu að verða náttúrulaus? þar sem fram komu margir af okkar allra bestu tónlistarmönnum (ásamt Damien Rice og Damon Albarn).
Ég keypti miða á fyrri tónleikana, daginn fyrir tónleika, og taldi mig heppinn að geta reddað þessu svona á síðustu stundu. Ætlaði ekkert á hina (hélt það væri löngu uppselt). Þá er hringt í mig, Þröstur fyrr. mágur, og hann hafði í hendi sér miða á lausu og spurði hvort ég væri ekki til. Þetta var sama kvöld, bara örlítið seinna. Eftir rækilegar vangaveltur sá ég að þetta gat púslast saman því fyrri tónleikarnir byrjuðu það snemma (kl. 5).
Tallis-tónleikarnir voru mikil og djúp kyrrðarstund með margslunginni tónlist. Það var því óneitanlega kyndugt að heyra í fjarska sprengingar í háloftunum, dempaðar en reglulegar (það var víst eins dags frestun á þrettándanum vegna veðurs). Eftir óaðfinnanlegan og upplífgandi söng Tallis-söngvaranna í Langholtskirkju gat ég auðveldlega rölt yfir í Laugardalinn og orðið vitni að stóru uppákomunni þar. Stórir skermar voru komnir upp beggja megin við sviðið, eins og maður er vanur frá erlendum tónleikahátíðum. Mjög flott aðkoma. Það sem var líka sérkennilegt við þetta allt saman var að þarna sungu hinir heimsfrægu Björk og Sigurrós mjög lítið. Atriðin þeirra voru fremur hófstillt og meira til þess fallin að kynda undir það sem seinna kom. Það undirstrikaði líka hvað við búum við mikla vídd í íslensku tónlistarlífi að geta veitt okkur þann munað að nota þessa fágætu listamenn svo kurteislega - án þess að það bitni svo mikið á gæðum hátíðarinnar.
Björk var flott, með hörpuundirleik, og söng þrjú lög. Svona berskjölduð hljómar hún best, eins og norn að magna fram einhvern dularfullan seið. Sigurrós stóðu líka fyrir sínu - með salinn á öndinni - og svo búið. Bara eitt tiltölulega stutt lag af nýju plötunni (Heysátan). HAM voru gríðarlega kraftmiklir, en að mínu mati einhæfir. Mugison þrælmagnaður, og átti salinn. Hins vegar fannst mér hápunktur kvöldsins vera í höndum útlendings. Ójarðneskur flutningur Damien Rice hélt við stöðugri gæsahúð hjá mér í þær tíu mínútur sem síðasta lagið ummyndaðist stig af stigi, með einföldum tækjabúnaði, en gríðarlega hugmyndaríkum flutningi. Þessi maður er ótrúlegur. Svo komu Egó í lokin; og þá var ég orðinn þreyttur og fór fljótlega.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli