sunnudagur, ágúst 22, 2004

Fréttnæmt: Viðburðarík vika

Þetta á eftir að verða eftirminnileg vika. Lou Reed hélt frábæra tónleika í Laugardalshöllinni, Ísland vann Ítalíu glæsilega á Laugardalsvellinum fyrir framan metfjölda áhorfenda og ríflega hundrað þúsund manns söfnuðust saman í miðbæ Reykjavíkur á Menningarnótt. Þessa vikuna byrjaði ég líka í nýrri vinnu, minni fyrstu dagvinnu í áraraðir. Ég vinn í gamla Dalbrautarskólanum (undir yfirstjórn Brúarskóla). Þetta er lítil og hugguleg kofaþyrping í Laugardalnum í mjög vernduðu umhverfi. Í næsta húsi er Barna- og unglingageðdeild. Þaðan koma nemendur okkar og sinnum við skólaskyldu þeirra frá hálf níu til hádegis. Síðan er fundað, tekið til og undirbúið fyrir næsta dag. Reiknað er með að vinnu ljúki fyrir klukkan fjögur að jafnaði en vinnutími er samt nokkuð sveigjanlegur. En þetta er dagvinna og það er mikil breyting fyrir sjóaðan vaktavinnumann að svissa yfir, eins og að fljúga á milli tímabelta. En það er þess virði því nú get farið að nýta kvöldin markvissar en undanfarin ár.

Engin ummæli: