Í gærmorgun mætti ég í skírnarmessu til að syngja með tvöföldum karlakvartett. Þetta er vanur sönghópur sem ég hef hóað saman á undaförnum misserum í samvinnu við Bjart Loga. Við ætlum okkur að bjóða upp á óvenjulega söngdagskrá þegar líður á veturinn ásamt því að skemmta okkur vel í samsöng jafn óðum. Við komum saman síðasta vor og æfðum í nokkur skipti. Tónlistin hljómaði fljótt mjög vel í hópnum og prógrammið var bæði áhugavert og spennandi en það var sama hvað við reyndum, við gátum ekki fundið nafn á hópinn. Nafnaleitin kraumaði undir í sumarfríinu og á þeim tíma hafa margar ágætar (en misalvarlegar) hugmyndir litið dagsins ljós:
Bjartur yfir Betlehem
Sönghópurinn org"andi"
Hinn Íslenski tvöfaldi söngkvartett.
En nafnlausir komum við hins vegar til leiks í gærmorgun og áttum í vændum okkar fyrsta opinbera söng. Vont var að geta ekki kynnt sig með nafni við þetta tilefni. En eitthvað var það nú við þessa skírnarmessu því á sama tíma og lítill drengur hlaut nafnið Ágúst Viðar fór prestur um víðan völl og talaði um "gull og græna skóga". Bjartur greip frasann á lofti og viðraði við okkur hina eftir messuna. Það var öllum ljóst í þessari skyndingu að frasinn er rausnarlegur og vísar einnig á mjög opinn hátt bæði til náttúru og menningar. Einnig býður hann upp á fjölmarga orðaleiki og útúrsnúninga, sem er mikill kostur. Gull og grænir skógar var því samþykkt einróma. Við hlutum skírn að messu lokinni.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli