Aftur kenni ég vinnutörn um nokkurra daga þögn. Nú er ég búinn að vinna samfellt í tæpar tvær vikur og fagna mjög þriggja daga hvíld, frá föstudegi til og með sunnudegi. Hvíld þessa helgina þýðir að ég held mig í Reykjavík og nýt þess að hlusta á regndropana hrökkva af harðgeru húsinu. Tjaldferð höfðar ekki til mín núna og allra síst innan um mannþröngina og lætin úti á landi.
Við Vigdís ætlum að hafa það notalegt, enda bæði í fríi þessa helgina. Bjóðum Jóni Má og Margréti kærustu hans í mat í kvöld. Við ætlum að bjóða upp á einn af uppáhaldsréttum okkar Vigdísar sem er Pakistanskur grænmetispottréttur. Daginn eftir er líklegt að Kristján og Stella (sem eru á leið til Danmerkur í miðjum ágúst) hafi eitthvað á prjónunum ásamt vinafólki okkar Einari og Sólveigu. Ekki er neitt ákveðið enn þá en ýmsar hugmyndir í gangi og fara þær að einhverju leyti eftir veðri.
Annars hef ég ekki verið alveg iðjulaus milli vinnutarna. Meðal annars að umstafla dóti hjá nýfluttri Beggu systur minni. Við ákváðum að allt dótið færi best í gegnsæjum plastkössum sem raðast saman hver ofan á annan með stærðfræðilegri nákvæmni. Mig langaði nánast að ráðast á geymsluna mína í kjölfarið því þetta kemur óhemju snyrtilega út í samanburði við brúnu pappakassana. Ég læt mér hins vegar nægja um sinn að setja upp litla snaga á kommóðuna sem geymir græjurnar mínar. Þeir eru ætlaðir heyrartólum sem ég á nokkur eintök af í ýmsum stærðum. Þetta á eftir að koma vel út.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli