laugardagur, júlí 31, 2004

Matur: Uppskrift. Pakistanskur grænmetispottréttur

Í gær var mikill uppáhaldsréttur okkar Vigdísar á boðstólum er Jón Már og Margrét kíktu í kvöldmat. Pakistanskur matur er mjög skyldur indverskum mat þannig að matseldin er á kunnuglegum slóðum (indverskt grænmetisfæði fellur líklega undir sérsvið mitt í matargerð). Svona gerum við:

1. Laukur hitaður í olíu (2-3 msk. ólifuolía og 1 stór laukur, smátt skorinn). Laukurinn glæraður í um 1-2 mínútur.

2. Hvítlauk og engifer bætt út í (2 rif af hvítlauk og ein lófastór engiferrót, fersk, fínt söxuð). Mallar í 1-2 mínútur í viðbót.

3. Kryddað (1 msk karrí, 1 tsk. chilipipar, 1 tsk. salt, 1 tsk. cumminduft, 1 tsk. kóríanderduft, 1 tsk kardimommuduft). Mallar áfram í 2 mínútur.

4. Kókosmjólk (3 dl. eða ein dós) bætt úr í. Lok sett á pottinn. Látið malla í um 5 mínútur. Hræra öðru hvoru svo rétturinn brenni ekki við.

5. Grænmetinu bætt úr í (3 stk. gulrætur í þunnum sneiðum, 3 stk. smátt skornar kartöflur, 1/2 blómkálshöfuð í smáum bitum, 250g af "frosnum" (en þiðnuðum) grænum baunum). Hræra vel í um eina mínútu. Loka svo pottinum og sjóða í um 10 mínútur eða þar til grænmetið er orðið meyrt.

6. Lokahönd: Strá ferskum kóríanderlaufum yfir (ca. hálfu búnti).

Borið fram með hrísgrjónum, fersku grænmeti (tómötum, gúrkum), kotasælu ásamt Nan-brauði sem fæst í flestum matvörubúðum. Meðlætið skal óspart nota til að tempra matinn ef hann skyldi vera mjög bragðsterkur. Mælt er með vatni með þessum mat eða svalandi mjólkurdrykk á borð við hinn indverska Lassi.






Engin ummæli: