föstudagur, júlí 16, 2004
Pæling: Hjólandi leiðsögn um bæinn
Nýverið heyrði ég sagt í einum fjölmiðlinum að hann væri í heimsklassa þessi hjólastígur sem liggur frá miðbænum, meðfram Ægissíðu að Ylströndinni, gegnum Fossvogsdalinn og þaðan inn í Elliðaárdalinn. Eftir því sem ég sjálfur hjóla þessa leið oftar sannfærist ég betur um þessa skoðun. Lítið þarf að sækja á brattann alla leiðina auk þess sem friðsæl íbúðarhverfi og náttúran skiptast á um að umlykja mann. Í dag hjólaði ég hins vegar sem leið lá úr vinnunni (sem er í Grafarvoginum) gegnum Bryggjuhverfið og þaðan inn í Laugardalinn, með viðkomu í Geirsnefi, gegnum miðbæinn og heim (í Vesturbæinn). Á þessari heimleið minni áttaði ég mig á því að með þessu lokaði ég "hringnum" sem áður var getið. Þvílíkur hringur! Væri ekki tilvalið að kynna útlendingum þessa leið betur? Til dæmis með því að bjóða upp á leiðsagnartúra á hjóli. Stofnkostnaður yrði lítill sem enginn. Á skiltinu stæði: Steini the cycling guide. Og ef rignir eða blæs of mikið má bjóða upp á gönguferðir um miðbæinn í staðinn, mænandi á sögulegan arkítektúr eða eitthvað praktískara (the walking guide) eða bara strætóferðir með leiðsögn um allan bæinn og úthverfin með. Reyndar myndi vefjast fyrir ferðamönnum ef maður kallaði sig "the bus guide".
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli