þriðjudagur, júlí 20, 2004

Upplifun: Fuglaskoðun í Elliðaárdal.

Ég skellti mér í fuglaskoðun eftir kvöldmatinn nokkuð óvænt. Jón Már vinur minn hringdi í mig og tók ég hugmynd hans fagnandi um kvöldrölt innan um trén, plönturnar og þá fáeinu fugla sem kynnu að láta sjá sig. Slíkt uppbrot í borgarlífinu er alltaf kærkomið. Ferðin var reyndar auglýst af Orkuveitunni og komu allmargir á staðinn. Líklega yfir 30 manns. Að einhverju leyti stuðlaði fjöldi skoðara að varfærni fuglanna í skóginum því ekki sáum við allt sem á stefnuskránni var að berja (með augunum). Svartþröstur lét á sér kræla á steini, Auðnutittlingar sveimuðu yfir með bylgjóttu fluglagi og Skúfendur sáust kafa hver í kapp við aðra þaðan sem við enduðum göngu okkar á stiflunni. Á leiðinni til baka reyndum við sérstaklega að koma auga á Glókoll, hinn nýja landnema, en aðeins heyrðist hvellt tístið í fjarska. Stofninn sveiflast víst með Sitka-lúsinni og var hann mjög útbreiddur í fyrrasumar í kjölfar faraldar lúsarinnar veturinn 2002-3. Í ár er víst mun minna af honum. En þarna er fuglinn samt svo ekki er um að villast. Ég mun að líkindum skima um eftir honum á ný í sumar, fetandi þá slóð sem við fórum í dag.

Engin ummæli: