miðvikudagur, júní 27, 2012
Leikrænir rokktónleikar
Það er skammt stórtónkeika á milli. Ég er nýbúinn að mæra Costello og verð að eyða nokkrum orðum í Ian Anderson og félaga í Jethro Tull. Þeir flutt hið kynngimagnaða meistaraverk "Thick as a Brick" í heild sinni rétt fyrir helgi og bættu svo um betur eftir hlé og flutt nýsamið framhaldsverk, sem fáir í salnum höfðu heyrt. Það reyndi á en var vel þess virði. Thick as a Brick er svokallað tónverkarokk, sem einkennist af löngum kaflaskiptum lagasmíðum sem margar hverjar jafnast á við sinfóníur að lengd. Við Villi fórum á tónleikana saman og vorum staddir ofarlega í Hörpunni og nutum ekki góðs af augnsambandi við flytjendur, en hljómburður var flottur samt sem áður. Söngvari sveitarinnar er orðinn nokkuð roskinn og raddlaus og það hefði verið beinlínis pínlegt að hlusta á hann kreista upp úr sér nótur í áttina að því sem hann söng á árum áður en sem betur fer notaðist hann við sérlegan aðstoðarmann úr leikarastéttinni, ungan Breta (um þrítugt) sem gerir út á það að leikflytja hin ýmsu rokktónverk (hefur til dæmis tekið þátt í uppfærslu Quadrophenia eftir the Who). Hann var mjög ljóðrænn og öruggur í flutningi og var ótrúlega flottur í hreyfingum, eins og nýstiginn upp úr Shakespeare leikriti, með svipmikla nærveru og náði að líkja eftir Anderson sjálfum bæði í sviðsframkomu og raddblæ. Saman voru þeir furðu góðir og í bland við alls kyns innskot í tónverkið, margmiðlunartækni og ýmsa uppsetta en skemmtilega lummulega brandara (eins og þegar "gemsinn" hans Ian Anderson hringdi þegar síst skyldi, rétt á undan einum helsta hápunkti verksins, og öll hljómsveitin þagnaði á meðan hann afsakaði sig gagnvart viðmælandanum) náði sveitin og hópurinn allur uppi á sviði að matreiða verkið eftirminnilega og koma á óvart með ýmsum hætti. Flottir tónleikar og gaman að fá í hendur framhaldsverkið með ítarlegri bók, sem við Villi keyptum að þeim loknum. Maður á eftir að grúska svolítið í því frameftir árinu, geri ég ráð fyrir.
mánudagur, júní 11, 2012
Tónleikar: Stórkostlegur Costello
Ég hef ekki skrifað mikið undanfarna daga en nú get ég ekki orða minna bundist. Ég var á svo mögunuðum tónleikum með Elvis Costello. Ég vissi að hann gæti verið magnaður einn síns liðs en þorði ekki vonast eftir svona ótrúlegri frammistöðu. Hann spilað svo sannarlega fyrir allan peninginn. Hann tók áhorfendur út í djúpu laugina og skautaði fram hjá þekktustu lögunum fimlega. Eftir eins og hálfs tíma spilamennsku var hann bara búinn að spila um tvö til þrjú þekkt lög og aðeins nokkur lög til viðbótar sem ég kannaðist við (og kann ég samt yfir tuttugu plötur utan að). En í uppklappi fór að bera meira á þekktari lögum. Hann var líklega klappaður upp fjórum sinnum og spilaði að minnsta kosti í tuttugu mínútur í hvert skipti. Þetta voru allt í allt tæplega þriggja tíma tónleikar - án hlés! Og kallinn að verða sextugur! Hann byrjaði að svitna strax í öðru lagi, í jakkafötum og með hatt, en sló ekki slöku við eitt andartak, endurvann gömul lög á mjög skapandi hátt, náði ótrúlega miklu út úr einum gítar og fór þess á milli út um víðan völl, skipti um ham aftur og aftur og blandaði saman stílum og stefnum. Stórkostlegur listamaður! Aðdáun mín á honum heldur bara áfram að vaxa. Ég er gáttaður.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)