þriðjudagur, apríl 15, 2003

Nú er ég búinn að lifa án tölvunnar minnar í heila viku. Þetta var ný kristaltær tölva í orðsins fyllstu merkingu. Mitt lán í öllu þessu óláni var að tölvan var splunkuný þannig að ég var enn ekki búinn að fylla hana af ómetanlegum gögnum. Sem betur fer. Satt að segja er ég fyrst og fremst feginn því að óþokkinn skemmdi ekki íbúðina og stal restinni af dótinu mínu. Þarna lágu óhreifð myndavél, ferðageislaspilari, nokkur hundruð geisladiskar, möppur með alls kyns gögnum (vegabréf og fleira). Ég hefði getað farið mun verr út úr þessu. 150 þúsund króna tölva er hins vegar nokkuð sem stuggar við manni fjárhagslega.

Rannsóknin er í gangi. Lögreglan er búinn að kíkja í fimm mínútur og taka málamyndaskýrslu og setja hana í skúffu. Þetta er of lítilshátta innbrot til að þeir nenni að eyða miklum tíma í það. Svo er ekkert um skýrar vísbendingar að sjá. Engin fingraför. Ég þarf að fara á stúfana sjálfur. Spyrjast fyrir um hvar maður kaupir þýfi. Það verður gaman að sjá hvað kemur út úr því. Kannski er það einhvers virði að verða fyrir svona áfalli ef það opnar manni augun fyrir undirheimum Reykjavíkur. Ég er sem sé fastagestur á subbulegri pöbbum bæjarins þessa dagana :-)

Engin ummæli: