laugardagur, apríl 05, 2003

Undanfarna viku hefur verið gestkvæmt hjá mér. Ég fékk góða vinkonu frá þýskalandi, Leonie, og vin hennar, Heiko, í heimsókn. Hann gisti hjá mér í tíu daga. Leonie hafði húsaskjól annars staðar en var heimagangur flesta daga. Mér fannst tilbreytingin góð, strax fyrsta daginn, að koma heim eftir erfiðan vinnudag og finna matarilm. Holan sem ég bý í á Grettisgötu er í alla staði mjög hugguleg en hún öðlaðist óneitanlega meira gildi í þessum í tíu daga félagsskap. Við gerðum ýmislegt saman en eitt það allra skemmtilegasta var að vinna að verkefni sem ég þurfti að skila inn í Kennaraháskólanum! :-) Þau gátu hjálpað mér því ég þurfti að skila inn nokkurra mínútna kennslumyndbandi. Efnistökin það frjáls að ég gat leyft mér að taka upp þýskukennslu á myndband. Þetta kallast að slá tvær þýskar flugur í einu höggi. Hugmyndin tókst á flug og við eyddum heilum degi í að uppgötva Reykjavík og taka mynd af því á meðan. Á endanum horfðum við saman á um það bil klukkutímalangt efni af líflegu bæjarrölti. Kaflarnir verða eftirfarandi: Kaffisopi í bakaríinu, á rölti um götur bæjarins, Í kolaportinu, uppi í Hallgrímskirkjuturni, ís í Perlunni og vídeóspóla að kveldi dags. Núna gerast hlutirnir hratt í Gagnasmiðju Kennaraháskólans. Ég er búinn að færa spóluna yfir á stafrænt form og leik mér að því næstu daga að klippa efnið til. Útkoman verður líklega knappt fimm mínútna kennslumyndband (samkvæmt forskrift verkefnisins). Ég vil hins vegar búa til aðra útgáfu fyrir sjálfan mig, eins konar "Director´s Cut", og klippa til mynd sem spannar líklega um fimmtán til tuttugu mínútur. Hún verður vandaðri, flottari og segir meiri sögu enda þarf ég ekki að takmarka hana við athyglisbrest venjulegs unglings í þýskutíma.

Engin ummæli: