fimmtudagur, apríl 30, 2009

sunnudagur, apríl 26, 2009

Pæling: Mikilvægar breytingar

Á þessum fyrsta degi hins "Nýja Íslands" (eins og sumir vilja kalla það) er gaman að segja frá því að ég tók mig til í gær og endurnýjaði heimilishaldið. Ég ákvað í snarhasti að einhenda mér í húsgagnaflutning. Borðið í eldhúsinu fór inn í stofu í staðinn fyrir borð sem þar var fyrir (sem fór í staðinn til inn í eldhús á meðan). Það magnaða gerðist að bæði borðin nutu sín betur á nýja staðnum með þeim árangri að þau búa til meira pláss kringum sig en áður. Þetta hljómar eins og stærðfræðileg þversögn en svona er það nú samt (enda eru húsgögn ekki bara massi og ummál heldur ber líka að taka tillit til hlutverks og notkunar). Þau virka sem sagt bæði "minni" en áður.

Það sem meira máli skiptir, hins vegar, er það að borðið sem fluttist inn í stofu bjó yfir þeim eiginleika að það er tiltölulega gott að sitja við það - allan hringinn. Ég var farinn að sjá fjölskylduna fyrir mér í hillingum sitjandi saman öll við sama borðið. Lága stofu-/sjónvarpsborðið er búið að henta Signýju og Hugrún ágætlega hingað til, rétt til að narta við og sitja við fyrir framan sjónvarpið. Hins vegar gramdist mér smám saman sú tilfinning að Signý og Hugrún virtust ætla að fara á mis við það grundvallaratriði í uppeldi sínu (vegna plássleysis í stofunni!!) að fá að sitja við borð með foreldrum sínum. Það er ótrúlega mikið uppeldisatriði. Þar með helgar maður sig frekar að matmálstímanum og skapar virðulegri umgjörð. Það sem kom mér hins vegar á óvart (því þarna borðuðum við strax í gær) að það að sitja í sömu augnhæð, bæði börn og foreldrar, skapar miklu fleiri tækifæri til samskipta. Tengslin eru miklu nánari svona.




Þegar ég var nýbúinn að koma borðinu fyrir á besta stað (sem er garðglugginn - fallegasti rammi stofunnar) var Signý fljót að átta sig á aðstæðum. Ég fór inn í eldhús og tók eitthvað til þar eftir tilfærsluna og kom inn í stofu á ný örfáum mínútum síðar og þá var sú litla sest á koll við borðið og byrjuð að dunda sér við að teikna (sjá hér fyrir ofan). Stuttu síðar dró ég fram Trip-trap barnastólana (sem hafa því miður lítið nýst okkur hingað til) og settist sjálfur á kollinn. Þarna sátum við svo þrjú, eins og í friðastund, og dunduðum okkur saman við að lita og púsla (sjá mynd fyrir neðan). Fjarlægðin frá sjónvarpinu og hæðin yfir gólfinu gerðið það að verkum að þær eirðu miklu lengur en annars og nutu sín einstaklega.




Við þessar tilfærslur bisaði ég frameftir. Fyrst prufukeyrði ég breytinguna á þeim Signýju og Hugrúnu, sem voru mjög sáttar og höfðu gaman af veseninu. Síðan hélt ég áfram að snurfusa hitt og þetta eftir að þær voru sofnaðar. Það var ekki fyrr en klukkan hálf tólf sem ég kveikti á kosningasjónvarpinu til að tékka á stöðu minna manna og leist bara ljómandi vel á stöðuna á þeim vettvangi líka. Ég get því ekki annað sagt en að þessi dagur hafi lofað góðu fyrir framhaldið - bæði hér heima við og úti í þjóðfélaginu.




fimmtudagur, apríl 23, 2009

Upplifun: Dætramóttaka

Áður en ég greini frá ferðinni til Indlands verð ég að segja frá því hvað það er magnað að vera svona langt í burtu og koma svo heim. Signý og Hugrún voru í miðjum draumaheimi þegar ég læddist inn til þeirra og viðbrögðin voru því ekkert of dramatísk. Enginn hamskipti í dagsins önn. Þær höfðu reyndar verið frekar stóískar yfir fjarveru minni allan tímann og voru aldrei neitt úr jafnvægi á meðan. Hins vegar skynjuðu þær vel þegar ég kom inn til þeirra. Signý reis upp eins og við martröð og baðaði út handleggjunum, hálfsofandi, og umlaði bænarrómi "pabbi"! Ég hélt utan um hana í smástund og hún sofnaði aftur vært. Hugrún var hins vegar uppí hjá okkur þessa nóttina og varð vör við mig þegar ég lagðist út af. Hún gjóaði til mín augunum og brosti og muldraði síðan "pabbi" með sér, aftur og aftur. Það var eins og hún dæsti af feiginleik á meðan hún hjúfraði sig inn í svefninn.

Einhvern veginn brenglast öll skynjunin við svona langa fjarvergu þannig að tilfinningin fyrir aldri og þroska eigin barna verður bjöguð. Þegar ég kom heim brá mér hálfpartinn við það hvað þær Hugrún og Signý voru mikið þroskaðri en mig minnti. Að einhverju leyti getur það stafað af því að ég hafði meðferðis á ferðalaginu myndir af þeim frá síðasta hausti. Myndirnar voru orðnar nokkurra mánaða gamlar og vöktu því sumpart upp úrelt hughrif. Fjarlægðin gerir líka fjöllin blá og börnin manns smá og ósjálfbjarga (þó þau séu langt komin með að vera stálpuð og stór). Svo þroskast þær líka alltaf eitthvað á meðan maður er í burtu. Sem betur fer passaði ég vandlega upp á þetta þegar ég keypti föt á þær. Ég keypti prinsessuklæði fyrir þriggja og fjögurra ára, svona til að vera nokkuð öruggur með að það nýtist á einhverju tímapunkti, ef ekki strax.

Það sem ég tók fyrst eftir var að Hugrún er farin að segja "Signý" (Sinný) en ekki "systir" þegar hún ávarpar systur sína. Þetta var alveg nýtt. Svo tók ég eftir því hvað þær tjáðu sig skýrt. Signý kom mér til dæmis skemmtilega á óvart með öllum sínum þroskuðu svipbrigðum. Hún er farin að geta látið líðan sína og hugsanir í ljós með svipbrigðunum einum saman. Vandlætingarsvipurinn sem hún sendir mér stundum er alveg dýrðlegur. Um daginn var ég að ávíta hana fyrir það að passa ekki nógu vel upp á að fara á klósettið í tæka tíð. Ég tók til þess bragðs að skamma hana. Þá sá ég hvernig það braust um í henni hvort hún ætti að vera pirruð, ósátt eða fara að gráta. Svo setti hún í brýrnar, stillti vinstri hönd á mjöðm og fór með vísifingur hægri handar á loft til áherslu: "Mér finnst ekki gaman þegar þú skammar mig svona, pabbi!".

mánudagur, apríl 20, 2009

Fréttnæmt: Heimkoma

Um helgina skelltum við Vigdís okkur út að borða í tilefni af heimkomu minni á fimmtudaginn var. Við fórum á Indian Mango sem er frábær indverskur staður á Frakkastígnum. Gaman var að virða hana Vigdísi fyrir sér uppáklædda í föt sem ég keypti úti með indverskt skart um hálsinn. Maturinn var líka fyrsta flokks og verðið nokkuð hófstillt. Frábær stund í alla staði.

Ferðin til Indlands var heljarmikil upplifun. Hún var líka gríðarleg vökuraun. Það er ótrúlegt hvað hægt er að fá líkamann til að gera og þola ef maður neitar því að hlusta á hann. Ég svaf nánast ekkert frá því ég vaknaði að morgni ferðadags (flogið um eftirmiðdaginn til London) þar til tveim dögum síðar. Þetta var sem sagt vökunótt í London + morgunflug í tíu tíma til Indlands (án svefns, því ég get ekkert sofið í flugvélasætum án þess að finnast ég vera að hálsbrotna) + millilent upp úr miðnætti í Mumbai og með töfum lent fimm að morgni í Chennai þar sem ég kom mér fyrir á hóteli rétt fyrir sex um morguninn. Klukkan ellefu var maður svo ræstur í verslunarleiðangur. Veisla framundan og svo framvegis...

Ég náði þó að sofa vel nóttina þar á eftir og naut mín vel þá þrjá daga sem liðu þar til ég fór heim á ný. Sú ferð var einnig vökuraun en þó ekki eins svæsin og ferðin til Indlands. "Bara" vökunótt í flugvél í næturferð til London og lent að morgni. Þar var ég svefnlaus strandarglópur en naut mín bara vel. Rölti um miðbæinn og keypti hitt og þetta í hinni mögnuðu borg. Ég flaug heim um kvöldið og lenti heima á miðnætti, kom heim um eitt. Vaknaði eldsnemma til vinnu daginn eftir.

Ég greini betur frá sjálfu landinu og hinni raunverulegu upplifun í næstu færslu - ásamt myndum.

fimmtudagur, apríl 09, 2009

Fréttnæmt: Ferðalag til framandi lands

Páskafríið framundan verður með skringilegra móti hjá mér. Ég er á leiðinni til Indlands í nokkra daga. Kem heim að kvöldi þess fimmtánda. Þetta er geysilangt ferðalag sem krefst þess að ég fljúgi fyrst til meginlands Evrópu (í mínu tilfelli Englands) og dvelji á flugvellinum yfir nótt áður en ég tek morgunflug til Indlands. Það er um það bil tíu tíma flug - til Bombay. Kominn þangað rétt fyrir miðnætti að staðartíma (tímamismunur 5 og hálfur tími). Þá er beðið í um tvo tíma í viðbót áður en tengiflug til Chennai (sem hét áður Madras) fer af stað. Verð kominn á áfangastað klukkan þrjú að staðartíma.

Það er nú ekki eins og mér hafi dottið sisona í hug að brölta þetta. Hún Leonie, sem eitt sinn dvaldi hér sem Au pair og er bæði Íslands- og fjölskylduvinur, er að fara að gifta sig. Hún er þýsk en maðurinn hennar Indverji. Þetta verður því ekta indverskt brúðkaup, með smá evrópskum keim. Þarna kemur saman fjöldi fólks og suma þeirra þekki ég sjálfur (tveir Íslendingar og svo nokkrir Þjóðverjar sem ég hef kynnst eftir að hafa heimsótt Leonie í tvígang til Þýskalands fyrir nokkrum árum). Brúðkaupið sjálft er þriggja daga ferli: Fyrst er haldið partí fram á nótt, daginn eftir er virðulegt matarboð og svo loks á þriðja degi (mánudaginn kemur) fer sjálf athöfnin fram. Sem mannfræðingur held ég að þetta verði mikil upplifun en ekki síður lít ég á þetta flakk sem lykilinn að Indlandi. Þetta er land sem mig hefur alltaf langað mikið til að sjá og upplifa en aldrei haft erindi til að heimsækja. Maður ferðast ekki svo auðveldlega til landsins vegna fjarlægðarinnar og það er víst ekki síður erfitt að flakka þar um (mikil mannþröng, fátækt og framandi tungumál). Eftir þessa ferð (sem er eins örugg og hugsast getur) mun ég hins vegar átta mig betur á aðstæðum og mögulega fara aftur seinna.

Sú hugmynd að koma aftur, ef mér líst vel á landið, er mér ofarlega í huga af því að Vigdís kemst ekki með mér núna. Ástæður eru fjölmargar - fjárhagslegar ástæður (tvöfaldur kostnaður ferðar sem er nógu dýr fyrir), allt of erfið ferð og of stutt til að slaka almennilega á, of lítill fyrirvari til að fá pössun (þær Hugrún og Signý hafa ekki verið yfir nótt neins staðar enn þá). Við tókum okkur reyndar góðan tíma til að hugsa málið saman en ákváðum að fara þessa leið. Það eru allir samtaka um að aðstoða Vigdísi eftir þörfum á meðan þannig að ég ætti ekki að hafa neinar áhyggjur - þó mér líði eins og hálfgerðum liðhlaupa. Maður ornar sér bara við tilhugsunina um að koma með eitthvað fallegt til baka handa þeim, haug af ljósmyndum úr framandi heimi og helling af minningum.

Þeir sem vilja hafa samband mega gjarnan vita að ég verð með gemsann á mér - en hef slökkt á honum. Ég opna fyrir hann öðru hvoru til að athuga með SMS (það berst mér að kostnaðarlausu, ólíkt símtölunum). Ég reikna líka með að hafa aðgang að tölvupósti öðru hvoru.

Bless á meðan.

mánudagur, apríl 06, 2009

Daglegt líf: Veislur og spariföt

Í gær fórum við í fermingarveislu Theodóru frænku. Veislan var haldin á A. Hansen (eins og það hús er kallað enn í dag þrátt fyrir nafnbreytingu). Blíðskaparveður og sögulegt andrúmsloft staðarins stuðlaði að afar notalegri fjölskyldustund. Signý og Hugrún voru líflegar og vildu endilega æða sem oftast út þar sem finna mátti gosbrunn og önnur skemmtilegheit. Fannar og Guðný voru mjög dugleg að sinna þeim úti við og hlupu með þeim fram og aftur.

Signý fær aldrei leið á því að klæða sig upp. Fyrir um viku síðan fór hún ásamt mér í formlega heimsókn til Birkis Freys í tilefni af innflutningi hans í glæsilega íbúð með útsýni yfir höfnina. Við færðum honum innflutningsgjöf frá okkur öllum (Vigdís var heima með Hugrúnu lasna). Signý spókaði sig á svölunum og naut útsýnisins og ríghélt í höndina á Theodóru frænku sinni (sem þá var enn ófermd). Hún virðist hafa mjög gaman af því að fara í heimsóknir. Yfirleitt er hún svolítið feimin fyrst í stað en er síðan fljót að njóta sín og getur þá bundist trúnaðarböndum þeim sem hún er með.

Það er gaman að fara með hana út úr húsi. Hún kann svo vel að meta það. Þegar Signý kom af tónleikunum um daginn kom hvað skýrast í ljós hvað hún nýtur sín vel uppáklædd. Ég var á leiðinni heim með þær tvær (nýbúinn að skutla Vigdísi í vinnuna eftir tónleikana) og þá spurði Signý sisona:

"Pabbi, ertu ennþá fínn?"

Það kom smá hik á mig. Ég var enn í sparifötunum og sagði því "Já".

"Ég líka".