Í gær fórum við í fermingarveislu Theodóru frænku. Veislan var haldin á A. Hansen (eins og það hús er kallað enn í dag þrátt fyrir nafnbreytingu). Blíðskaparveður og sögulegt andrúmsloft staðarins stuðlaði að afar notalegri fjölskyldustund. Signý og Hugrún voru líflegar og vildu endilega æða sem oftast út þar sem finna mátti gosbrunn og önnur skemmtilegheit. Fannar og Guðný voru mjög dugleg að sinna þeim úti við og hlupu með þeim fram og aftur.
Signý fær aldrei leið á því að klæða sig upp. Fyrir um viku síðan fór hún ásamt mér í formlega heimsókn til Birkis Freys í tilefni af innflutningi hans í glæsilega íbúð með útsýni yfir höfnina. Við færðum honum innflutningsgjöf frá okkur öllum (Vigdís var heima með Hugrúnu lasna). Signý spókaði sig á svölunum og naut útsýnisins og ríghélt í höndina á Theodóru frænku sinni (sem þá var enn ófermd). Hún virðist hafa mjög gaman af því að fara í heimsóknir. Yfirleitt er hún svolítið feimin fyrst í stað en er síðan fljót að njóta sín og getur þá bundist trúnaðarböndum þeim sem hún er með.
Það er gaman að fara með hana út úr húsi. Hún kann svo vel að meta það. Þegar Signý kom af tónleikunum um daginn kom hvað skýrast í ljós hvað hún nýtur sín vel uppáklædd. Ég var á leiðinni heim með þær tvær (nýbúinn að skutla Vigdísi í vinnuna eftir tónleikana) og þá spurði Signý sisona:
"Pabbi, ertu ennþá fínn?"
Það kom smá hik á mig. Ég var enn í sparifötunum og sagði því "Já".
"Ég líka".
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli