fimmtudagur, apríl 23, 2009

Upplifun: Dætramóttaka

Áður en ég greini frá ferðinni til Indlands verð ég að segja frá því hvað það er magnað að vera svona langt í burtu og koma svo heim. Signý og Hugrún voru í miðjum draumaheimi þegar ég læddist inn til þeirra og viðbrögðin voru því ekkert of dramatísk. Enginn hamskipti í dagsins önn. Þær höfðu reyndar verið frekar stóískar yfir fjarveru minni allan tímann og voru aldrei neitt úr jafnvægi á meðan. Hins vegar skynjuðu þær vel þegar ég kom inn til þeirra. Signý reis upp eins og við martröð og baðaði út handleggjunum, hálfsofandi, og umlaði bænarrómi "pabbi"! Ég hélt utan um hana í smástund og hún sofnaði aftur vært. Hugrún var hins vegar uppí hjá okkur þessa nóttina og varð vör við mig þegar ég lagðist út af. Hún gjóaði til mín augunum og brosti og muldraði síðan "pabbi" með sér, aftur og aftur. Það var eins og hún dæsti af feiginleik á meðan hún hjúfraði sig inn í svefninn.

Einhvern veginn brenglast öll skynjunin við svona langa fjarvergu þannig að tilfinningin fyrir aldri og þroska eigin barna verður bjöguð. Þegar ég kom heim brá mér hálfpartinn við það hvað þær Hugrún og Signý voru mikið þroskaðri en mig minnti. Að einhverju leyti getur það stafað af því að ég hafði meðferðis á ferðalaginu myndir af þeim frá síðasta hausti. Myndirnar voru orðnar nokkurra mánaða gamlar og vöktu því sumpart upp úrelt hughrif. Fjarlægðin gerir líka fjöllin blá og börnin manns smá og ósjálfbjarga (þó þau séu langt komin með að vera stálpuð og stór). Svo þroskast þær líka alltaf eitthvað á meðan maður er í burtu. Sem betur fer passaði ég vandlega upp á þetta þegar ég keypti föt á þær. Ég keypti prinsessuklæði fyrir þriggja og fjögurra ára, svona til að vera nokkuð öruggur með að það nýtist á einhverju tímapunkti, ef ekki strax.

Það sem ég tók fyrst eftir var að Hugrún er farin að segja "Signý" (Sinný) en ekki "systir" þegar hún ávarpar systur sína. Þetta var alveg nýtt. Svo tók ég eftir því hvað þær tjáðu sig skýrt. Signý kom mér til dæmis skemmtilega á óvart með öllum sínum þroskuðu svipbrigðum. Hún er farin að geta látið líðan sína og hugsanir í ljós með svipbrigðunum einum saman. Vandlætingarsvipurinn sem hún sendir mér stundum er alveg dýrðlegur. Um daginn var ég að ávíta hana fyrir það að passa ekki nógu vel upp á að fara á klósettið í tæka tíð. Ég tók til þess bragðs að skamma hana. Þá sá ég hvernig það braust um í henni hvort hún ætti að vera pirruð, ósátt eða fara að gráta. Svo setti hún í brýrnar, stillti vinstri hönd á mjöðm og fór með vísifingur hægri handar á loft til áherslu: "Mér finnst ekki gaman þegar þú skammar mig svona, pabbi!".

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þær eru alveg magnaðar þessar elskur...

Frábært að fylgjast með þeim og sjá framfarirnar í þeirra þroska ....

Þær eru yndislegar....
kv.Begga frænka...