fimmtudagur, apríl 09, 2009

Fréttnæmt: Ferðalag til framandi lands

Páskafríið framundan verður með skringilegra móti hjá mér. Ég er á leiðinni til Indlands í nokkra daga. Kem heim að kvöldi þess fimmtánda. Þetta er geysilangt ferðalag sem krefst þess að ég fljúgi fyrst til meginlands Evrópu (í mínu tilfelli Englands) og dvelji á flugvellinum yfir nótt áður en ég tek morgunflug til Indlands. Það er um það bil tíu tíma flug - til Bombay. Kominn þangað rétt fyrir miðnætti að staðartíma (tímamismunur 5 og hálfur tími). Þá er beðið í um tvo tíma í viðbót áður en tengiflug til Chennai (sem hét áður Madras) fer af stað. Verð kominn á áfangastað klukkan þrjú að staðartíma.

Það er nú ekki eins og mér hafi dottið sisona í hug að brölta þetta. Hún Leonie, sem eitt sinn dvaldi hér sem Au pair og er bæði Íslands- og fjölskylduvinur, er að fara að gifta sig. Hún er þýsk en maðurinn hennar Indverji. Þetta verður því ekta indverskt brúðkaup, með smá evrópskum keim. Þarna kemur saman fjöldi fólks og suma þeirra þekki ég sjálfur (tveir Íslendingar og svo nokkrir Þjóðverjar sem ég hef kynnst eftir að hafa heimsótt Leonie í tvígang til Þýskalands fyrir nokkrum árum). Brúðkaupið sjálft er þriggja daga ferli: Fyrst er haldið partí fram á nótt, daginn eftir er virðulegt matarboð og svo loks á þriðja degi (mánudaginn kemur) fer sjálf athöfnin fram. Sem mannfræðingur held ég að þetta verði mikil upplifun en ekki síður lít ég á þetta flakk sem lykilinn að Indlandi. Þetta er land sem mig hefur alltaf langað mikið til að sjá og upplifa en aldrei haft erindi til að heimsækja. Maður ferðast ekki svo auðveldlega til landsins vegna fjarlægðarinnar og það er víst ekki síður erfitt að flakka þar um (mikil mannþröng, fátækt og framandi tungumál). Eftir þessa ferð (sem er eins örugg og hugsast getur) mun ég hins vegar átta mig betur á aðstæðum og mögulega fara aftur seinna.

Sú hugmynd að koma aftur, ef mér líst vel á landið, er mér ofarlega í huga af því að Vigdís kemst ekki með mér núna. Ástæður eru fjölmargar - fjárhagslegar ástæður (tvöfaldur kostnaður ferðar sem er nógu dýr fyrir), allt of erfið ferð og of stutt til að slaka almennilega á, of lítill fyrirvari til að fá pössun (þær Hugrún og Signý hafa ekki verið yfir nótt neins staðar enn þá). Við tókum okkur reyndar góðan tíma til að hugsa málið saman en ákváðum að fara þessa leið. Það eru allir samtaka um að aðstoða Vigdísi eftir þörfum á meðan þannig að ég ætti ekki að hafa neinar áhyggjur - þó mér líði eins og hálfgerðum liðhlaupa. Maður ornar sér bara við tilhugsunina um að koma með eitthvað fallegt til baka handa þeim, haug af ljósmyndum úr framandi heimi og helling af minningum.

Þeir sem vilja hafa samband mega gjarnan vita að ég verð með gemsann á mér - en hef slökkt á honum. Ég opna fyrir hann öðru hvoru til að athuga með SMS (það berst mér að kostnaðarlausu, ólíkt símtölunum). Ég reikna líka með að hafa aðgang að tölvupósti öðru hvoru.

Bless á meðan.

Engin ummæli: