mánudagur, febrúar 15, 2010

Pæling: Félagslegt innsæi Signýjar

Það er að koma betur og betur í ljós hvað Signý er mikill friðarsinni og diplómat. Hún hefur ávallt minnt okkur á að lækka róminn ef við spennumst eitthvað upp, jafnvel bara yfir handboltaleik. Hún sagði mér eitt sinn skýrt og skorinort að "maður á alltaf að vera góður". Hvaðan hún hefur það veit ég ekki :-)

Núna upp á síðkastið kemur þetta viðhorf sem sagt betur og betur í ljós með frumkvæði hennar á ögurstundu. Þegar Hugrún grætur - til dæmis eftir að hafa verið skömmuð - er Signý fyrst á vettvang til að hugga hana. Stundum færir hún henni uppáhalds bangsana hennar - eða sína eigin - og leggur sig virkilega fram. Um daginn var svo vasaljósadagur í leikskólanum. Af tilefninu eignuðust þær báðar nett vasaljós og voru þær mjög uppteknar af leik með ljós og myrkur allt kvöldið. Hugrún fór hins vegar ekki eftir settum reglum (opnaði vasaljósið og var í sífellu að fikta í rafhlöðunum) og fór að hágráta þegar ljósið var fjarlægt (eftir ítrekaða viðvörun, að sjálfsögðu). Hún gaf sig ekki og hélt áfram að gráta og spurði í sífellu um vasaljósið á meðan við foreldrarnir hunsuðum viðbrögðin. Þá kom Signý með sitt vasaljós á vettvang og bauð henni: "Sjáðu, Hugrún, ég FANN ljósið ÞITT!". Það sem vakti athygli mína var ekki sú fórnfýsi að láta sitt vasaljós af hendi heldur vissi hún að Hugrún myndi ekki viljað annað en sitt eigið ljós. Þetta krafðist ekki bara fórnfýsi heldur ákveðins félagslegs innsæis líka, að hagræða sannleikanum svolítið til hvatningar.

Núna um helgina bræddi hún mig hins vegar alveg. Ég var á leiðinni í heimsókn með þær tvær og bíllinn fór að láta mjög illa á miðri leið. Hann gat ekki með góðu móti skipt á milli gíra, einhverra hluta vegna. Ég var þreyttur í ofanálag og varð mjög pirraður við þetta. Tók bensín, þungt hugsi, og ætlaði svo af stað á ný. Bíllinn komst hins vegar ekki nema í fyrsta gír svo ég renndi honum á plan rétt hjá. Ég hugsaði mitt rjúkandi ráð. Veðrið var leiðinlegt og ég sá fyrir mér vesenið að hringja í leigubíl og fara aftur með honum heim, með stelpurnar og stólana. Ég var hálf hjálparvana yfir þessu vegna þess að bíllinn var nýkominn úr viðgerð út af einmitt þessu, með glænýja kúplingu! Fannst þessi vandi ætla að elta mig endalaust. Þá fann ég allt í einu hvað þær Signý og Hugrún voru hljóðar. Þær skynjuðu auðvitað hvað ég var pirraður og sögðu ekki orð fyrr en ég leit til þeirra. Þá sagði Signý hughreystandi: Pabbi, við getum alveg labbað?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hún er ótrúleg stelpan...

Nafnlaus sagði...

þetta átti að vera kv. Begga frænka