þriðjudagur, febrúar 23, 2010

Upplifun: Kúplingarsaga bílsins

Ef einhver skyldi hafa velt vöngum yfir örlögum bílsins úr síðustu færslu þá er hann í mjög góðu standi þessa dagana. Sagan er hins vegar brokkgeng og nær aftur til janúarmánaðar 2008 þegar ég átti í spennuþrungnum samskiptum við bifvélavirkja. Þá var skipt um kúplingu í bílnum og leiddist það út í eftirminnilega atburðarás eins og ég greindi ítarlega frá í þremur pistlum. Á þeim tíma sem liðinn er hefur bíllinn plumað sig ágætlega og gírskiptingin verið í góðu lagi, með smá dagamun kannski, sem mér hefur virst fara eftir raka og hitastigi að einhverju leyti. Núna fyrir nokkrum vikum síðan fór bíllinn hins vegar að verða leiðinlegur á ný. Það gerðist akkúrat vikuna fyrir bústaðaferðina. Á nokkrum dögum versnaði bíllinn úr því að láta sérkennilega í að geta ekki skipst á milli gíra. Hann var óökufær með öllu nokkrum dögum fyrir bústaðaferð. Hræðileg tímasetning! Þá kom Sverrir, bróðir Vigdísar, okkur til bjargar og vann í bílnum í eina tvo daga. Fyrst átti að redda þessu fyrir horn en með tímanum kom í ljós að kúplingin væri ónýt. Aftur! Sverri munaði hins vegar ekkert um að stússast í þessu og reddaði öllum varahlutum og bíllinn var orðinn eins og nýr daginn fyrir brottför. Við vorum auðvitað dauðfegin en samt svolítið hvekkt líka. Ég skildi ekki hvernig kúpling gæti farið á aðeins tveimur árum. Það er orðið ansi mikill aukakostnaður að þurfa að gera þetta á tveggja ára fresti.

Um það bil viku eftir bústaðaferðina gerðist hins vegar það ótrúlega: Gírarnir fóru að standa á sér! Enn einu sinni. Þessi forsaga skýrir kannski hvers vegna ég var svo ráðalaus þegar bíllinn brást mér síðast (sjá síðustu færslu). Ég hafði ekki hugmynd um hvað væri að gerast og rétt náði að klöngrast á bílnum í öðrum gír á áfangastað þar sem ég hringdi í Sverri. Honum brá sjálfum mikið við lýsinguna á bílnum og kom hið snarasta, fór með bílinn upp í bílskúr til sín og kíkti á hann. Rúmlega klukkutíma seinna kom hann aftur og sagðist hafa komið auga á galla í sjálfum pedalanum - en ekki kúplingunni - alls óskyldur galli en með sömu einkennum. Hann reddaði þessu fyrir horn til að ég kæmist heim og lagaði svo til fullnustu seinna um kvöldið. En ég velti því hins vegar fyrir mér hvort pedalinn hafi verið orsök þess að síðasta kúpling slitnaði svo fljótt? Einnig, hvort slitin kúpling verki einnig neikvætt á pedalann? Maður þarf að beita sér óeðlilega á pedalanum ef kúplingin er slitin. Allt hlýtur þetta að verka á víxl og ég vonast svo sannarlega, út frá þeirri kenningu, að nú hafi verið komist endanlega fyrir þennan veikleika í bílnum.

Engin ummæli: