Nú þegar stysti mánuður ársins er á enda runninn er ekki úr vegi að taka saman allt lauslegt (=segja frá því helsta sem ekki hefur komist að enn þá). Þrennt ber hæst upp á síðkastið: A) Öskudagsbúningar Signýjar og Hugrúnar, B) fjögurra ára skoðun Signýjar og C) tónleikar Emilíönu Torrini, sem við Vigdís fórum á.
A) Ólíkt öskudeginum í fyrra lögðum við svolitinn metnað í að búa sjálf til búninga í ár. Mig minnir að þær hafi verið einhvers konar prinsessur í fyrra (með englavængi) - mjög auðvelt hugmynd - en núna fengu þær sjálfar að nota hugmyndaflugið. Signý var alltaf með á hreinu að hún vildi vera kisa, eins og þær sem hún horfir á í "Cats" söngleiknum. Það var nú ekki svo flókið. Við fundum nettan dansbúning og áttum kisueyru. Annað var bara spurning um útfærslu. Andlitsfarðinn var líka til staðar og ekki lengra síðan en í sumar að við máluðum þær báðar mjög veglega sem kisur. Núna var málið að gera bara enn betur og hafa búning með. Hugrún var hins vegar með örlítið erfiðari hugmynd. Hún vildi vera Mikki mús! Eftir smá umhugsun sáum við hins vegar að þetta ætti heldur ekki að vera svo ýkja erfitt. Aðalmálið var hins vegar að finna síðerma svartar buxur og bol og sníða á hana eldrauðar Mikkamúsbuxur með gulum hnöppum. Buxurnar reyndist hægðaleikur að sníða í vinnunni hjá mér því ég naut góðs af afar hæfum handmenntakennara í skólanum. Síðerma svartur bolur var hins vegar mesti höfuðverkurinn eftir allt saman því svartur er ekki sérlega vinsæll litur í þessari stærð. Hann fer börnum yfirleitt ekki svo vel :-) En það reddaðist og árangurinn má sjá á myndasíðunni.
B) Signý fór í fjögurra ára skoðun í mánuðinum og stóð sig vel. Hún var reyndar mjög feimin og misskildi eitt verkefnið. Þegar hún var látin endurtaka nokkrum sinnum hopp á öðrum fæti og var leiðrétt aftur og aftur (af því hún vildi styðja sig við) fór hún í baklás. Vildi varla telja upphátt þegar að því kom. En feimnin rann svo af henni áður en yfir lauk og hún kláraði mun flóknari verkefni í lokin með glans.
C) Svo fórum við Vigdís á eftirminnilega tónleika í Háskólabíói um síðustu helgi. Emilíana hefur mjög tilgerðarlausa sviðsframkomu og nær að heilla alla með einlægninni. Lögin voru mjög fjölbreytt enda hefur ferillinn hennar verið mjög breytilegur gegnum tíðina. Síðustu tvær plötur eru til dæmis mjög ólíkar en báðar hreint frábærar, sú fyrri mjög innileg og persónuleg en hin nokkuð flippuð og hugdjörf. Lagavalið var að mestu leyti helgað þessum tveimur plötum í bland við nokkra eldri gullmola. Persónulega fannst mér flutningurinn hennar á "Birds" standa upp úr (það lag fattaði ég ekki almennilega fyrr en á tónleikunum) og svo hið svakalega sýrukennda "Gun" sem ég hef nýverið haldið hvað mest upp á af lögunum hennar. Það lag var lang magnaðasti hluti tónleikanna að mínu mati. Hins vegar voru upphitunarlistamennirnir líka mjög eftirminnilegir og stálu nánast senunni, svo góðir voru þeir. Sá fyrri var þjóðlagasöngkona sem minnti mig mjög á Lhasa de Sela (sem ég einmitt minntist á nýlega) og hin var rísandi nýstirni frá Bretlandi, söngvari af guðs náð. Sá seinni heitir Joe Worricker en ég hef enn ekki getað komist að því hver hinn listamaðurinn er - jafnvel ekki með hjálp netsins.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli