mánudagur, maí 28, 2012
Daglegt líf: Blíðviðrið
Ótrúleg veðurblíðan sem hefur leikið okkur síðan fyrir sumardaginn fyrsta. Síðan þá hafa bara komið skýjaðir dagar í tvígang, tvo daga í röð í bæði skiptin. Og það er bara betra því smá rigning er nauðsynlegt mótvægi við sólina, svo maður þurfi ekki að standa í ströngu við að vökva garðinn. Úti er búið að vera nánast heiðskýrt upp á hvern einasta daga, vikum saman, en það tekur hins vegar loftið tíma að hitna. Það er enn pínu svalt úti - frískandi en fallegt. Geggjað gluggaveður og bara fínt peysuveður, prýðilegt til að hreyfa sig í og ganga á fjöll og þar fram eftir götunum. En þeir kvarta margir enn yfir veðrinu þrátt fyrir allt. Til dæmis um daginn þá fór ég í sund með pabba. Við flutum um Breiðholtslaugina eins og rekaviður og horfðum í baksundi upp á skýjatjásurnar sem teygðu sig inn á bláa himnabreiðuna. Ekkert ógnaði blíðviðrinu og hvergi gat ég hugsað mér betri stað en láta mig marra í hálfu kafi í sundlauginni og lesa út úr skýjunum. Svo röltum við í heita pottinn undir það síðasta og það fyrsta sem ég heyrði var að sjálfsögðu: "Það mætti nú vera hærri lofthitinn!"
fimmtudagur, maí 17, 2012
Upplifun: Að leyfa gestunum að ráða
Afmælið í gær var mjög skemmtilegt en það var ekki síður minnisstætt fyrir hvað ég þurfti lítið að hafa fyrir hlutunum. Var reyndar búinn að hafa fyrir því að taka mjög rækilega til, baka fína súkkulaðiköku og undirbúa leiki. En það þurfti ekkert að hafa fyrir stelpunum. Þær vissu alveg hvað þær vildu gera og dunduðu sér með allt dótið þeirra Signýjar og Hugrúnar, á milli mála, þangað til öllum datt í hug að fara út að leika undir lokin. Svona skilst mér að þetta sé oft í stelpuafmælum á þessum aldri (ólíkt hasarnum í strákaafmælunum). Á einum tímapunkti datt mér í hug að grípa inn í og góma athygli þeirra með frábærri sögu sem ég átti, frægri erlendri barnabók sem ég treysti mér til að snara í tilefni af afmælinu (Caps for Sale). Ég var nýbúínn að prufukeyra hana með Signýju og Hugrúnu í vikunni og var viss um að hún myndi slá í gegn, sem hún eflaust hefði gert ef ég hefði fengið að lesa hana. Ég sá alveg fyrir mér að allar stelpurnar myndu sitja í andakt í mjúku rúmi Signýjar og Hugrúnar (sem lágu saman eins og tvíbreitt rúm) og þær voru um það bil að koma sér notalega fyrir þegar tvær þeirra sátu eftir á gólfinu. Þær voru eitthvað uppteknar við barbíhús og slóruðu við að koma sér fyrir. Ég hugsaði mig um og ákvað bara að gefa þeim svigrúm til að hlusta "af gólfinu". En þá gerðist svolítið sem mér fannst merkilegt; um leið og ég sleppti orðinu spruttu allar hinar stelpurnar, sem höfðu verið svo tillitssamar að koma sér fyrir, niður á gólf aftur og byrjuðu líka að dunda sér. Ég byrjaði samt að lesa, vongóður um að bókin næði athyglinni fljótt, en tók eftir því að engin þeirra leit svo mikið sem upp til að sjá þessar frábærlega skemmtilegu myndir sem ég hélt til sýnis. Þá áttaði ég mig allt í einu að þær höfðu aðrar væntingar en ég um hvað skemmtilegast væri að gera í afmælinu. Þegar ég lokaði bókinni ákvað ég að láta af stjórninni í smástund og leyfa þeim að halda "sitt afmæli" í friði.
miðvikudagur, maí 16, 2012
Vel heppnað barnaafmæli
Ég ákvað að halda upp á barnaafmæli Hugrúnar í gær. Þetta er "hitt" afmælið sem svo oft fylgir fjölskylduafmælinu (þar sem foreldrar okkar Vigdísar og systkini og aðrir aðstandendur fylla hólf og gólf í okkar knöppu en huggulegu húsakynnum). Til að gefa vinkonum Hugrúnar svigrúm til að leika sér varð að bjóða þeim sér. Það var í gær.
Hugrún fékk að bjóða sjö vinkonum sínum og fimm þeirra komust. Það var alveg nógu líflegt. Þetta eru afar ljúfar stelpur sem kunna að dunda sér svo það var mjög auðvelt að halda utan um afmælið. Vigdís var því miður upptekin annars staðar svo ég hóaði í Beggu systur sem kom ásamt Guðnýju frænku. Það er nauðsynlegt að hafa að minnsta kosti eina auka manneskju til að sinna tilfallandi hlutum, eins og að sækja pitsu og svoleiðis, og grípa inni í ef einhver meiðir sig eða vill fara út að leika.
Þær reyndust betri en engin og það vakti talsverða athygli meðal þeirra foreldra sem stöldruðu við hvað Guðný var dugleg að leika sér með börnunum. Hún breytti sér í tröllskessu eins og ekkert væri og hrelldi þær duglega í bakgarðinum og leyfði þeim að hlaupa um bæði hlæjandi og öskrandi af geðshræringu. Þetta var mjög skemmtilegt. Enda var það fyrsta sem ég heyrði í dag, þegar ég kom í leikskólann að sækja Hugrúnu, að það hefði verið "gaman í afmælinu í gær".
Hugrún fékk að bjóða sjö vinkonum sínum og fimm þeirra komust. Það var alveg nógu líflegt. Þetta eru afar ljúfar stelpur sem kunna að dunda sér svo það var mjög auðvelt að halda utan um afmælið. Vigdís var því miður upptekin annars staðar svo ég hóaði í Beggu systur sem kom ásamt Guðnýju frænku. Það er nauðsynlegt að hafa að minnsta kosti eina auka manneskju til að sinna tilfallandi hlutum, eins og að sækja pitsu og svoleiðis, og grípa inni í ef einhver meiðir sig eða vill fara út að leika.
Þær reyndust betri en engin og það vakti talsverða athygli meðal þeirra foreldra sem stöldruðu við hvað Guðný var dugleg að leika sér með börnunum. Hún breytti sér í tröllskessu eins og ekkert væri og hrelldi þær duglega í bakgarðinum og leyfði þeim að hlaupa um bæði hlæjandi og öskrandi af geðshræringu. Þetta var mjög skemmtilegt. Enda var það fyrsta sem ég heyrði í dag, þegar ég kom í leikskólann að sækja Hugrúnu, að það hefði verið "gaman í afmælinu í gær".
þriðjudagur, maí 08, 2012
Mikilvægi kossa á barnaheimilum
Stundum vill það gleymast hvað það er hollt fyrir börn að sjá foreldra sína kyssast og knúsast. Það virkar eins og næring fyrir þau og vellíðanin sprettur fram í andlitunum. Þegar verr stendur á, og foreldrarnir hafa áhyggjur af einhverjum aðsteðjandi vanda, er þetta eins og mótefni fyrir börnin, svo að þau taki ekki inn á sig áhyggjur foreldranna. Ekkert skiptir þau meira máli en hlýja á heimilinu, bæði gagnvart þeim og ekki síður á milli foreldranna.
Undanfarið höfum við Vigdís verið óvenju meðvituð um þennan "sýnileika" og þegar við kyssumst er eins og hríslist ánægjan í Signýju og Hugrúnu. "Þetta er annað skiptið í dag!" hrópaði Hugrún einu sinni af einskærri ánægju. Þær taka vel eftir. Núna síðast skríkti í henni þegar við Vigdís kysstumst við matarborðið (enda var frábær matur á boðstólum og sannkölluð veitingahúsastemning í stofunni, með framandi tónum í bakgrunni). Þegar Hugrún var búin að láta út úr sér ánægjutóna sagði Signý: "Það má aldrei segja "oj" þegar einhver er að kyssast". Hún var dreymin á svipinn og bætti við: "Kossar eru fallegir".
Undanfarið höfum við Vigdís verið óvenju meðvituð um þennan "sýnileika" og þegar við kyssumst er eins og hríslist ánægjan í Signýju og Hugrúnu. "Þetta er annað skiptið í dag!" hrópaði Hugrún einu sinni af einskærri ánægju. Þær taka vel eftir. Núna síðast skríkti í henni þegar við Vigdís kysstumst við matarborðið (enda var frábær matur á boðstólum og sannkölluð veitingahúsastemning í stofunni, með framandi tónum í bakgrunni). Þegar Hugrún var búin að láta út úr sér ánægjutóna sagði Signý: "Það má aldrei segja "oj" þegar einhver er að kyssast". Hún var dreymin á svipinn og bætti við: "Kossar eru fallegir".
Afmæli Hugrúnar
Hugrún varð fimm ára um daginn. Við héldum upp á það með hefðbundnum hætti: Við Vigdís útbjuggum einhverjar lágmarks veitingar á meðan annar hver gestur kippti með sér einhverju aukreitis. Reyndar lögðu allir metnað í sinn hlut og komu með alls kyns kræsingar. Í fyrsta skipti tókst mér að búa til verulega góða súkkulaðiköku (Djöflatertu upp úr Hagkaupskökubókinni). Ég gat borðað hana af bestu lyst í marga daga á eftir.
Við vorum mjög ánægð með hvað margir sáu sér fært að mæta, ýmsir sem ekki höfðu mætt áður og smellpössuðu inn i teitið :-) Svo þegar inni var orðið full mannmargt í okkar litlu íbúð ákváðu börnin og nokkrir fullorðnir að fara út í garð að leika í sólinni. Frábær fjölskylduskemmtun, að vanda.
Við vorum mjög ánægð með hvað margir sáu sér fært að mæta, ýmsir sem ekki höfðu mætt áður og smellpössuðu inn i teitið :-) Svo þegar inni var orðið full mannmargt í okkar litlu íbúð ákváðu börnin og nokkrir fullorðnir að fara út í garð að leika í sólinni. Frábær fjölskylduskemmtun, að vanda.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)