þriðjudagur, maí 27, 2008

Upplifun: Misheppnuð ísferð

Þegar ég sótti Signýju í leikskólann ákvað ég að splæsa á okkur ís. Hugrún var í bílnum líka svo ég leyfði þeim að bíða þar rétt við ísbúðina góðu. Ég var í augnsambandi við Signýju allan tímann og reiknaði með að vera fljótur. Yfirleitt tekur þetta örfáar mínútur að fá ís þegar lítið er að gera, eins og núna. Biðin var hins vegar þrisvar til fjórum sinnum lengri en venjulega. Fólkið á undan mér pantaði sér allt sitthvora gerðina af bragðaref (myndarleg íshræra með alls kyns bragðefnum). Það tekur alltaf lengri tíma. Fólkið þar á eftir var líka í einhverju sunnudagsskapi og dundaði sér við þetta. Svo var afgreiðslufólkið óvenju hægfara, utan við sig og ómarkvisst. Þetta voru þrjár ungar stúlkur sem ég kannaðist ekki við úr ísbúðinni, líklega nýbyrjaðar. Til að bæta gráu ofan á svart var ísinn eitthvað óvenju mjúkur og hélt ekki dýfunni almennilega. Það var reynt ítrekað en manninum á undan mér tókst ekki að fá venjulega ís í formi án þess að þurfa að baktryggja sig með boxi jafnframt. Þegar loksins kom að mér var ég búinn að vera að spennast upp, orðinn dauðþreyttur enda sífellt að kíkja um öxl eftir Signýju (sem enn var í augnsambandi og greinilega orðin þreytt). Í ljósi vandræðagangsins á undan mér var ég ekki í stuði til að panta mér einn venjulegan rausnarlegan ís í formi með dýfu og kurli. Ég þóttist skynsamur og lét mér nægja að panta mér einn lítinn í boxi, - þó með súkkulaðisósu. Ég hefði þó betur sleppt henni því það sem ég fékk í hendur var pínulítið box með fátæklegri íslufsu umkringda súkkulaðihafi sem var við það að flæða yfir barmana. Bara óþægilegt, ef maður ætlar sér að gefa með sér úr framsætinu. Það endaði því með því að ég gaf þeim Signýju og Hugrúnu standandi fyrir utan, eins stirðbusalega og það hljómar, svo það helltist nú ekki niður.

Vandræðagangur.

Á leiðinni út úr ísbúðinni sá ég tilkynningu. Hún skýrði nokkkuð vel hvernig stóð á öllum þessum erfiðleikum. Eigendurnir eru nýbúnir að opna nýja ísbúð á Grensásvegi. Þar er væntanlega allt reynda starfsfólkið saman komið í startholunum við að koma nýja staðnum á kortið. Verst að á meðan skuli afgreiðslan hér í Vesturbænum líði fyrir vikið. Þetta hlýtur þó að slípast til á nokkrum dögum.

sunnudagur, maí 25, 2008

Þroskaferli: Ímyndunaraflið beislað

Ég tók eftir því sérstaklega í morgun að Signý er komin yfir það að taka endalok Stubbanna nærri sér. Í hvert sinn sem hún horfir á þá hefur hún endað með því að hágráta þegar þættinum lýkur. Þá gerist það nefnilega að allir fara að sofa, einn af öðrum, og þeir kvaddir formlega. Smám saman breytast ljósin á svefntjöldunum þeirra í fjarlægar stjörnur og það eina sem er eftir er stjörnuhiminninn. Þá hefur Signý alltaf farið að hágráta - þar til um síðustu helgi. Mér fannst það ekki fyllilega að marka þá vegna þess að hún var með flensu og ekki alveg lík sjálfri sér en í morgun endurtók hún leikinn og horfði á þáttinn til enda með jafnaðargeði.

Þetta er ágætt, eins konar framfaraskref, vaxandi æðruleysi kannski. Þau í leikskólanum hafa haft orð á því hvað hún Signý er tilfinninganæm og með mikið ímyndunarafl. Á sínum tíma gat hún ekki horft á Litlu ljótu lirfuna vegna þess hvað hún komst í mikið uppnám, bæði þegar köngulóin birtist og svo þegar lirfan breyttist í fiðrildi. Tárin flóðu. Sú mynd var tekin úr umferð fyrir um ári síðan. Kannski kominn tími til að tékka á henni aftur.

miðvikudagur, maí 21, 2008

Upplifun: Fjöruferð

Fór í fjöruferð í vinnunni i gær. Það var gert í tengslum við þemavinnu sem er í gangi og tengist fuglum og fiskum. Krakkarnir undu sér einstaklega vel í frábæru veðri, söfnuðu skeljum og öðrum fyrirbærum. Ég var hins vegar upptekinn við að góma daginn í myndaseríu. Margar tókust sérlega vel. Því miður má ég ekki birta myndir af krökkunum en hér er ein sem lýsir samt vel veðurblíðunni og náttúrfegurðinni sem við blasti í stillunni.


mánudagur, maí 19, 2008

Upplifun: Afslöppun í einn dag

Í gær héldum við Vigdís upp á það að sex ár væru liðin frá því við kynntumst. Við gerðum okkur glaðan dag. Fengum pössun upp úr hádegi og fram að kvöldmat (Begga er alltaf jafn hjálpsöm gagnvart okkur) og byrjuðum á því að skella okkur í sund í Vesturbæjarlauginni. Við renndum eftir það austur fyrir fjall að Stokkseyri þar sem við pöntuðum okkur humar. Það voru fáir á staðnum og við nutum góðs af því, enda þjónustan frábær. Þetta rifjaði upp margar góðar stundir sem við höfum átt saman. Stokkseyri og Árborgin öll skartaði sínu fegursta og vakti með manni löngun til að fara að þvælast um landið. Ferðin heim var notaleg eftir því og við vorum sem endurnærð allt kvöldið. Ekki var verra að fá það á tilfinninguna við heimkomu að Hugrún og Signý hafi skemmt sér jafn vel í félagsskap Beggu á meðan.

laugardagur, maí 17, 2008

Fréttnæmt: Útskrift Birkis Freys


Birkir&Theo


Í gær fórum við Hugrún í útskriftarveislu Birkis Freys. Hann var að útskrifast frá Iðnskólanum og gerði það glæsilega, með hæstu einkunn úr sinni deild. Hann var hinn rólegasti yfir þessu og virtist taka öllu með jafnaðargeði. Annars var stemningin afar góð og allir mjög makindalegir. Við Hugrún gerðum matnum góð skil (snittur og smáréttir af ýmsu tagi) og hún hreif fólk með sér hvert sem hún leit. Hún meira að segja gerði sér lítið fyrir og sendi salnum fingurkossa í gríð og erg þegar við fórum. Hún er alltaf jafn kát með viðbrögðin sem hún fær.

Fréttnæmt: Smá veikindagusa

Nú er Signý búin að vera svolítið lasin. Fyrir um hálfum mánuði þurfti hún að fara á sýklakúr. Svo var hún í góðu lagi í rúma viku eftir að því sleppti. Núna á miðvikudaginn var fékk hún aftur hita, sem jókst á öðrum degi. Vigdís var heima með þær báðar í þrjá daga, drógum það að leysa út lyf en það var eiginlega nóg komið á föstudaginn (eftir þriggja daga föstu). Signý missir nefnilega matarlystina mjög snögglega þegar hún veikist og grennist býsna hratt á nokkrum dögum, sem er alltaf áhyggjuefni. Vigdís fór í gærkvöldi á Jet Black Joe tónleikana í Höllinni og ég var einn með þær tvær. Signý var eitthvað byrjuð að borða, eftir fyrsta lyfjaskammtinn, svo þetta leit ágætlega út fyrir mig á meðan. Ég sinnti þeim samkvæmt venju og svæfði. Þá tók Signý upp á því að vakna rétt fyrir miðnætt og væla ámátlega. Hún kvartaði undan verkjum í maganum ("ég meiddi mig" segir hún og bendir á magann). Ég nuddaði hana mjúklega og hún virtist róast, en samt aldrei alveg. Svo kom "hinn djúpi ropi" og gusan í kjölfarið. Hún kastaði upp yfir rúmið. Það gerðist í tvígang með tiltölulega stuttu millibili, á tveimur mismunandi stöðum í íbúðinni (enda færðum við okkur um set eftir fyrra skiptið). Það er ægilegt að horfa upp á þetta hjá henni. Hún verður svo hrædd þegar hún gubbar. Svo veit hún ekkert hvernig hún á að vera þegar hún finnur fyrir ónotum og er í afneitun ef ég spyr hana hvort hún þurfi að gubba. En sem betur fer róaðist hún snarlega eftir seinna skiptið. Þegar ég var búinn að þrífa hana nógu vel sá ég hvernig hún slakaði loksins á og lognaðist hún út af á örskömmum tíma.

Í dag er Signý búin að vera hress og brosandi. Nú er lyfin farin að virka og hún er komin með þokkalega matarlyst, sem betur fer.

föstudagur, maí 09, 2008

Þroskaferli: Eins árs skoðun

Í gær kláruðum við síðustu kökuleifarnar frá eins árs afmæli Hugrúnar. Sama dag vildi til að Vigdís fór með Hugrúnu í eins árs skoðun. Hugrún stóð sig víst vel, grét bara pínulítið þegar hún fékk sprautu en fór svo að brosa á ný eftir andartak. Helstu niðurstöður úr athuguninni:

Þyngd: 9.3 kg
Hæð: 77 cm