Um helgina skelltum við Vigdís okkur út að borða í tilefni af heimkomu minni á fimmtudaginn var. Við fórum á Indian Mango sem er frábær indverskur staður á Frakkastígnum. Gaman var að virða hana Vigdísi fyrir sér uppáklædda í föt sem ég keypti úti með indverskt skart um hálsinn. Maturinn var líka fyrsta flokks og verðið nokkuð hófstillt. Frábær stund í alla staði.
Ferðin til Indlands var heljarmikil upplifun. Hún var líka gríðarleg vökuraun. Það er ótrúlegt hvað hægt er að fá líkamann til að gera og þola ef maður neitar því að hlusta á hann. Ég svaf nánast ekkert frá því ég vaknaði að morgni ferðadags (flogið um eftirmiðdaginn til London) þar til tveim dögum síðar. Þetta var sem sagt vökunótt í London + morgunflug í tíu tíma til Indlands (án svefns, því ég get ekkert sofið í flugvélasætum án þess að finnast ég vera að hálsbrotna) + millilent upp úr miðnætti í Mumbai og með töfum lent fimm að morgni í Chennai þar sem ég kom mér fyrir á hóteli rétt fyrir sex um morguninn. Klukkan ellefu var maður svo ræstur í verslunarleiðangur. Veisla framundan og svo framvegis...
Ég náði þó að sofa vel nóttina þar á eftir og naut mín vel þá þrjá daga sem liðu þar til ég fór heim á ný. Sú ferð var einnig vökuraun en þó ekki eins svæsin og ferðin til Indlands. "Bara" vökunótt í flugvél í næturferð til London og lent að morgni. Þar var ég svefnlaus strandarglópur en naut mín bara vel. Rölti um miðbæinn og keypti hitt og þetta í hinni mögnuðu borg. Ég flaug heim um kvöldið og lenti heima á miðnætti, kom heim um eitt. Vaknaði eldsnemma til vinnu daginn eftir.
Ég greini betur frá sjálfu landinu og hinni raunverulegu upplifun í næstu færslu - ásamt myndum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
En spennandi. Hlakka til að lesa ferðasögu og myndir.
Skrifa ummæli