Núna er Signý með hálsbólgu og smá hita og liggur heima í ró og spekt. Hugrún var líka með hita um daginn en var hitalaus í gær og í dag. Hún er í leikskólanum. Vonandi að ekki sé veikindatörn framundan. Maður er orðinn hálf hvumpinn eftir tímabilið sem við fórum í gegnum fyrir rúmu ári síðan. Við erum búin að vera heppin með veikindi undanfarið og fyrst þær eru veikar núna prísar maður sig sælan fyrir að hafa komist í sumarbústaðinn fyrir viku síðan. Þá nutu þær sín sérstaklega vel. Allt umhverfið þar hentar þeim mjög vel og virkar eins og ævintýri á þær. Í bústaðnum eru "þverkojur" í miklu uppáhaldi (sem sagt efra rúmið er þvert á neðra rúmið, til fóta). Þær nýttu sér rýmið undir eins og hús eða helli og þess á milli vippuðu þær sér upp á efri kojuna þaðan sem þær gátu horft niður á neðri kojuna eins og útbreitt landsvæði. Leikurinn tók á sig skemmtilega mynd því efri kojan breyttist brátt í flugvél og ég lá í neðri kojunni og lék flugstjórann, stýrði ferðalögum til fjarlægra landa. Það sem kom mér skemmtilega á óvart var hvernig þær útbjuggu flugsætin. Í efri kojunni eru geymdar sólstólasessur, með teygjubandi. Sessunum var komið fyrir í "sitjandi stöðu", í vinkli. Systurnar settust á þær eins og sæti og smeygðu teygjubandinu utan um sig: "Beltin spennt!". Signý er yfirleitt með frumkvæðið og Hugrún dugleg að fylgja hugmyndum eldri systur sinnar eftir. Ferðalagið teygði sig fram og aftur um heiminn, frá Afríku til Indlands, með viðkomu á Akureyri! (ekki veit ég hver hefur minnst á Akureyri við hana Signýju. Líklega er einhver þaðan í leikskólanum).
Bústaðaferðin var eftirminnileg fyrir ýmislegt. Einar afi (pabbi Vigdísar) hélt upp á stórafmæli í nágrenninu og þar voru margir saman komnir. Ég tók mig til og rakaði af mér hárið og spókaði mig um í sveitakyrrðinni með "kiwikoll". Allt gott um það að segja, enda ekkert þægilegra í byrjun sumars en að létta aðeins af hárinu. HIns vegar kom upp sérkennileg staða þegar við ætluðum aftur í bústaðinn. Þar er öryggishlið sem þarf að hringja í til að opnist. Það svarar aðeins fyrirfram skráðum símanúmerum svo að ég hef alltaf þurft að hringja í eigendur bústaðarins (Jón Má eða foreldra hans) til að fá hliðinu lyft. Það er ekkert mál nema það að núna vildi hliðið ekki opnast. Við biðum í óvissu um það hvenær eða hvort hliðið myndi opnast. Hugrún var sofnuð eftir veisluna fyrr um daginn, dagur að kvöldi kominn, og við smeyk um að það myndi fara illa um hana til lengdar. Þarna biðum við í rúman hálftima eftir því að einhver annar gestanna á svæðinu birtist og myndi opna fyrir okkur. Það reyndust furðufáir á svæðinu og sá sem endanum birtist og hleypti okkur inn kannaðist við þessa bilun í búnaðinum. Það er eiginlega furðulegt að þetta skuli geta komið fyrir. Ég spjallaði við Jón um þetta eftir á og við vorum sammála að þetta gæti í einhverjum tilvikum reynst mjög alvarlegt, til dæmis ef maður er að fara í skyndingu á sjúkrahús með veikt barn! Það sem er hins vegar eftirminnilegast við þessa uppákomu er sú sérkennlega staða sem ég sjálfur var í, nýbúinn að snoða mig og alveg svartklæddur frá toppi til táar. Ég hefði getað farið fótgangandi og leitað aðstoðar í næsta húsi. Ég hins vegar kunni engan veginn við það að banka upp á svona útlítandi því ég var viss um að ég myndi þykja grunsamlegur í meira lagi. Við sátum góða stund og mændum á einn bústaðinn, nokkur hundruð metra í burtu, þar sem greinilega voru gestir innandyra á meðan ég reyndi að sannfæra sjálfan mig um að einhver hlyti að birtast á næstunni (enda vont að vera í burtu þegar einhver loksins kemur að hliðinu). Þetta var svona svipuð stemning og að bíða eftir strætó í rúman hálftíma. Óvissan er verst og maður tvístígur allan tímann. En sem betur fer fór þetta vel og allir sofnuðu vel á endanum eins og allar hinar næturnar.
mánudagur, júní 29, 2009
miðvikudagur, júní 24, 2009
Pæling: Alls kyns dagbækur og dagbókafærslur
Eins og sjá má á síðustu færslu eru ágætar skýringar á bloggleysi síðustu vikna. Sagnfræðingar framtíðarinnar koma hins vegar ekki til með að eiga í vanda með að stoppa í gatið (ef þeir sýna ævi þessa tiltekna Íslendings nokkurn áhuga, það er að segja) því ég hef verið duglegur að skrifa í dagbækur á tímabilinu. Ég er farinn að skrifa markvisst í gömlu góðu prívat bókina mína. Mikið finnst mér það notalegt. Þar getur maður notað alls kyns styttingar og talað dulmál við sjálfan sig. Svo er kyrrðin fyrir framan bók, með penna í hönd, alltaf mjög notaleg. Fyrir utan þessa bók skildi ég eftir tiltölulega langa færslu í gestabók sumarbústaðarins um síðustu helgi. Svo skrifuðum við líka í dagbók bangsa sem fylgdi Signýju heim um daginn. Um hann má lesa á myndasíðunni en þar er líka að finna fullt af öðrum nýjum myndum. Líka fullt af myndum frá Indlandi sem ég hafði lengi trassað að færa inn. Ekki gleyma því að myndasíðan er líka eins konar blogg, bara myndrænna :-)
Fréttnæmt: Fyrstu dagar sumarfrísins
Nú er ég loksins kominn í sumarfrí (reyndar eru ein og hálf vika að baki). Satt að segja hefur tíminn ekki nýst vel til að blogga. Ætli bíllinn hafi ekki tekið mestan tíma frá mér. Ég var búinn að bíða með að yfirfara bílinn af því ég vissi af svo góðu fríi framundan. Svo bíður hann, skjóðurinn, eftir mér ókláraður þegar fríið byrjar, auðvitað. Það var svo margt sem ég hafði trassað:
Ég átti eftir að:
* fara með hann í olíuskipti,
* láta líta á viftureimina (sem ískrar ískyggilega öðru hvoru),
* skipta um dekk (orðin nánast gatslitin og griplaus)
* ryðhreinsa ljóta bletti (til þess þarf ég verfæri og vinnuaðstöðu)
* skipta um framrúðu (kom sprunga í hana snemma í vetur)
* bóna bílinn í bak og fyrir (það gerði ég bara einu sinni í vetur)
* taka til í honum og hreinsa að innan
* fara með hann í skoðun.
Tímafrekast af þessu öllu (fyrir utan að hreinsa ryðblettina) er að finna góð notuð dekk í réttri stærð, því þau liggja ekki á lausu. Ný dekk kosta 25-30 þúsund stykkið í dag svo að sá kostur var ekki álitlegur. Með hjálp Togga, hennar Ásdísar, fann ég hins vegar óslitin og fín dekk á 10 þúsund stykkið. Slapp þar með skrekkinn. Á morgun fer bíllinn í skoðun og fær nýja rúðu. Í næstu viku, ef til vill, ræðst ég á ryðblettina. Þetta er allt að koma.
Ég var heppinn að finna dekk í tæka tíð því um síðustu helgi fórum við í fjölskyldunni saman í sumarbústað Jóns Más (þann bústað sem Signý kallar Melkorkuhús, eftir dóttur þeirra Jóns og Margrétar). Þar áttum við ákafleg notalega daga saman. Meira um það næst.
Ég átti eftir að:
* fara með hann í olíuskipti,
* láta líta á viftureimina (sem ískrar ískyggilega öðru hvoru),
* skipta um dekk (orðin nánast gatslitin og griplaus)
* ryðhreinsa ljóta bletti (til þess þarf ég verfæri og vinnuaðstöðu)
* skipta um framrúðu (kom sprunga í hana snemma í vetur)
* bóna bílinn í bak og fyrir (það gerði ég bara einu sinni í vetur)
* taka til í honum og hreinsa að innan
* fara með hann í skoðun.
Tímafrekast af þessu öllu (fyrir utan að hreinsa ryðblettina) er að finna góð notuð dekk í réttri stærð, því þau liggja ekki á lausu. Ný dekk kosta 25-30 þúsund stykkið í dag svo að sá kostur var ekki álitlegur. Með hjálp Togga, hennar Ásdísar, fann ég hins vegar óslitin og fín dekk á 10 þúsund stykkið. Slapp þar með skrekkinn. Á morgun fer bíllinn í skoðun og fær nýja rúðu. Í næstu viku, ef til vill, ræðst ég á ryðblettina. Þetta er allt að koma.
Ég var heppinn að finna dekk í tæka tíð því um síðustu helgi fórum við í fjölskyldunni saman í sumarbústað Jóns Más (þann bústað sem Signý kallar Melkorkuhús, eftir dóttur þeirra Jóns og Margrétar). Þar áttum við ákafleg notalega daga saman. Meira um það næst.
þriðjudagur, júní 02, 2009
Upplifun: Þrefalt brölt
Eins og ég ýjaði að í síðustu færslu átti eftir að verða framhald á menningarupplifunum mánaðarins. Aldrei þessu vant fór ég út úr húsi þrjú kvöld í röð í síðustu viku á meðan Vigdís var heima og gætti Signýjar og Hugrúnar. Fyrsta daginn, á þriðjudaginn var, fór ég í bíó og sá Draumalandið. Sú mynd stóðst væntingar fyllilega. Hún fór ekki út í öll smáatriði bókarinnar en bætti í staðinn ýmsum áhugaverðum molum við og var sjónrænt mjög mögnuð upplifun. Í myndinni kemur meðal annars fram hversu hrikalega stórfyrirtækin hafa leikið sér að Austfjörðum og keypt þau, rétt eins og eiturlyfjasali sem gefur óhörðnuðum unglingum dóp og herðir síðar meir snöruna. Við pabbi fórum á myndina saman og röltum fram og til baka í Háskólabíó í frábæru vorveðri. Daginn eftir kíkti ég niður í bæ þar sem ég mælti mér mót við Jón Má yfir úrslitaleiknum stóra milli Barcelona og Manchester United. Veðrið var áfram frábært og við hittumst hjólandi. Hann var kominn á undan mér á staðinn og úrskurðaði "fundarstaðinn" fullbókaðan. Áhuginn á leiknum var það gríðarlegur. En við dóum ekki ráðalausir og hjóluðum heim til hans í Álfheimana. Sáum leikinn þar og sötruðum pilsner. Sá drykkur var keyptur í klukkubúð í Glæsibæ og verðið kom mér til að kvarta sáran við afgreiðslustúlkuna - sem samsinnti fáránlega háu verði enda sagðist hún sjálf koma með nesti í vinnuna!! Pilsnerinn kostaði sem sagt um 178 krónur sem er talsvert meira en hægt er að fá hann á í Bónus (68 krónur). Reyndar ekki alveg sama tegund en það vekur mann samt til umhugsunar. Að lokum skellti ég mér á síðustu stundu á sögulega sinfóníutónleika í Háskólabíói. Þeir voru sögulegir fyrir það annars vegar að tónlistin fjallaði um alræmt umsátur Nasista um Leníngrad í síðari heimstyrjöldinni, túlkað af rússanum Shostakovich, sem var í borginni í upphafi umsátursins. Tónlistin er því mjög ógnvekjandi og skelfileg. Sigurmars, sem spilaður er í lokin, er ljótleikinn uppmálaður, enda stóð enginn upp sem hreykinn sigurvegari eftir þessa raun. Hin sögulega ástæðan fyrir því að ég skellti mér á tónleikana var hljómsveitarstjórinn sem kominn er vel á aldur. Rozdhestvensky (vonandi skrifaði ég nafnið rétt) fæddist á fjórða áratug síðustu aldar, var einn af vinum sjálfs tónskáldsins og er með virtari hljómsveitarstjórum síðustu aldar. Hann er þar að auki einn af mínum uppáhalds hljómsveitarstjórum allra tíma. Gott ef ég á ekki hátt í tíu diska með klassískri tónlist sem keyptir voru af áfergju út á nafn hans eingöngu. Keimurinn af þessari minningu á því eflaust eftir að verða nokkuð sætur þegar fram líða stundir.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)